Viðskipti innlent

Nova bannað að gefa hættulega bolta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Nova i Lágmúla.
Höfuðstöðvar Nova i Lágmúla. Vísir
Fjarskiptafyrirtækinu Nova hefur verið gert að innkalla bolta sem fyrirtækið gaf síðastliðið sumar þar sem þeir eru taldir hættulegir ungum börnum. Þar að auki hefur Neytendastofa bannað frekari afhendingu boltanna.

Um er að ræða bolta sem eru fylltir með litlum plastkúlum og merktir Nova. Fram kemur í ákvörðun Neytendastofu um sölu- og afhendingarbannið að stofnuninni hafi borist ábendingar um að boltarnir væru ekki CE-merktir, samanber reglugerð um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér má sjá boltana og innihald þeirra.Neytendastofa
Ekki bætti úr skák að aðrar viðvörunarmerkingar vantar á boltana, til að mynda að þeir henti ekki börnum yngri en þriggja ára. Við athugun Neytendastofu kom auk þess í ljós að saumar boltans gætu rifnað og innihald boltans, fyrrnefndar plastkúlur, orðið aðgengilegt börnum.

Því hafi stofnunin tekið ákvörðun um að setja varanlegt afhendingarbann á umrædda Nova-bolta. „Á EES-svæðinu eru gerðar þær kröfur að leikföng séu CE-merkt. Með CE-merkinu lýsir framleiðandi því yfir að vara sem hann hafi framleitt uppfylli þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til vörunnar,“ segir meðal annars í rökstuðningi Neytendastofu.

Nova var því gert að innkalla vöruna og birta neytendum viðvörun um að þeir skyldu skila eða eyða vörunum á öruggan hátt. Neytendastofa tekur þó fram að stofnuninni hafi ekki borist neinar tilkynningar um um slys af völdum boltanna.

Hægt er að sjá ákvörðun Neytendastofu hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×