Enski boltinn

Meira en peningum að þakka að Liverpool er með 15 stigum meira en á sama tíma í fyrra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp stefnir hraðbyri að Englandsmeistaratitlinum.
Jürgen Klopp stefnir hraðbyri að Englandsmeistaratitlinum. getty/Nick Taylor
Liverpool valtaði yfir Newcastle, 4-0, í ensku úrvalsdeildinni í gær á sama tíma og Manchester City tapaði fyrir Leicester og eru lærisveinar Jürgens Klopps því með sex stiga forskot á toppnum þegar að deildin er hálfnuð.

Liverpool hefur ekki unnið Englandsmeistaratitilinn síðan árið 1990 þegar að hún hét enn þá 1. deildin en liðið hefur aldrei í sögunni verið betra í ensku úrvalsdeildinni og er ansi líklegt til árangurs.

Munurinn á milli ára er rosalegur þegar kemur að stigasöfnun eins og bent var á í Match of the Day á BBC í gærkvöldi en Liverpool-liðið er með fimmtán stigum meira en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir að skora næstum jafnmörg mörk.

Eftir 19 umferðir á síðustu leiktíð var Liverpool búið að vinna níu leiki, gera átta jafntefli og tapa tveimur leikjum. Það var með 35 stig, búið að skora 41 mark en fá á sig 23. Varnarleikurinn er töluvert betri á þessu tímabili.

Núna er Liverpool búið að vinna 16 leiki af 19, gera þrjú jafntefli og ekki tapa einum einasta leik. Það er búið að skora 43 mörk en fá aðeins á sig sjö. Liverpool-liðið er með 36 mörk í plús og 51 stig.

„Liðið bætti við sig frábærum leikmönnum eins og allir vita en stóri munurinn er gleðin sem ríkir í hópnum. Það er enginn að kvarta og líkamstjáning leikmanna sýnir að þeir vilja spila fyrir Klopp,“ sagði Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool, í MotD í gærkvöldi.

Mo Salah hefur blómstrað undir stjórn Jürgens Klopps.getty/James Baylis
Liverpool hefur eytt fúlgum fjár í leikmannahópinn undanfarin misseri en það gerði Virgil van Dijk að dýrasta varnarmanni sögunnar og Brassann Alisson að dýrasta markverði sögunnar. En, peningarnir eru ekki eina ástæðan fyrir velgengni liðsins að mati Jamie Redknapp, fyrrum leikmanni liðsins og sparkspekingi Sky Sports.

„Manchester United er búið að eyða 200 milljónum meira en Klopp en ekki er það að fara að vinna titilinn. Í Liverpool-liðinu sem rústaði Newcastle voru strákar eins og Trent Alexander-Arnold, sem er uppalinn, átta milljóna punda vinstri bakvörður, Andrew Robertson, og Xherdan Shaqiri sem kostaði þrettán milljónir frá Stoke,“ segir Redknapp í pistli sínum á Daily Mail.

„Klopp er ekki bara stjóri sem kemur auga á hæfileikaríka menn heldur bætir hann leikmennina sína. Mohamed Salah var ekki 40 marka framherji og líklegur til að vinna Gullboltann þegar að hann kom til Liverpool. Þá er Joe Gomez að verða byrjunarliðsmaður í enska landsliðinu,“ segir Jamie Redknapp.

Klippa: FT Liverpool 4 - 0 Newcastle

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×