Enski boltinn

Fyrrum leikmaður Víkings hetja Leeds í uppbótartíma tvisvar sinnum á þremur dögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kemar Roofe fagnar markinu á móti Aston Villa.
Kemar Roofe fagnar markinu á móti Aston Villa. getty/Nathan Stirk
Kemar Roofe er vinsælasti leikmaður enska B-deildarliðsins Leeds þessa dagana en hann gerði jólin heldur betur gleðileg fyrir stuðningsmenn liðsins.

Roofe skaut Leeds nefnilega á toppinn með þremur mörkum í uppbótartíma í tveimur leikjum í röð með þriggja daga millibili er Leeds lagði Aston Villa, 3-2, á Þorláksmessu og svo Blackburn á öðrum degi jóla, 3-2.

Leeds átti magnaða endurkomu á móti Aston Villa í seinni hálfleik eftir að vera 2-0 undir í hálfleik en liðið jafnaði leikinn með tveimur mörkum á 56. mínútu og 61. mínútu áður en Kemar Roofe sendi Leeds-stuðningsmenn glaða inn í jólin með sigurmarki á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

Roofe gerði svo enn betur í gær þegar að Leeds var við það að tapa leiknum á móti Blackburn. Það fékk á sig mark á 90. mínútu og lenti 2-1 undir en Roofe jafnaði metin á fyrstu mínútu uppbótartímans og skoraði sigurmarkið tæpum fjórum mínútum eftir venjulegan leiktíma.

Þrjú mörk frá Roofe í uppbótartíma í tveimur leikjum og Leeds, sem hefur ekki spilað í úrvalsdeildinni í fjórtán ár, gæti verið á leiðinni aftur upp í deild þeirra bestu. Það er allavega á toppnum núna.

Kemar Roofe er merkilegur piltur en hann fæddist í Walsall árið 1993 og er því 25 ára. Hann kom upp í gegnum akademíu West Bromwich en var lánaður nokkrum sinnum þaðan, fyrst til Víkings í Pepsi-deildinni árið 2011.

Roofe spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik á ferlinum á Íslandi 26. maí árið 2011 og skoraði í 2-0 bikarsigri Víkinga gegn KV í Vesturbænum. Hann spilaði tvo í tveimur jafnteflisleikjum Víkings í Pepsi-deildinni á móti FH og Grindavík áður en að hann fór aftur heim.

Þessi markheppni framherji, sem er búinn að skora þrettán mörk í 18 leikjum fyrir Leeds á tímabilinu, kom frá Oxford árið 2016 eftir að vera kjörinn besti leikmaður ensku D-deildarinnar það árið. Hann hefur jafnt og þétt unnið sig upp ensku deildirnar og er nú einn besti leikmaður B-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×