Enski boltinn

Hazard með 101 mark fyrir Chelsea en vill verða goðsögn eins og Lampard og Terry

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eden Hazard skorar og skorar.
Eden Hazard skorar og skorar. getty/Richard Heathcote
Chelsea er aftur komið á meðal fjögurra efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar eftir að leggja Watford að velli í 19. umferðinni í gærkvöldi, 2-1.

Eden Hazard skoraði bæði mörkin fyrir Chelsea í leiknum en fyrra markið var númer 100 fyrir liðið síðan að hann gekk í raðir þeirra bláu frá Lille árið 2012.

Hann er búinn að skora 79 mörk í 226 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en mest skoraði hann 16 mörk tímabilið 2016-2017. Hazard er nú þegar kominn með tíu mörk í deildinni þegar að helmingurinn er enn þá eftir.

„Ég mun aldrei gleyma því að skora 101 mark fyrir þetta frábæra félag. Ég vil þakka stuðningsmönnunum, starfsfólkinu, mér sjálfum og samherjum mínum en við viljum meira,“ sagði kátur Hazard eftir sigurinn.

„Ég vil skora fleiri mörk fyrir Chelsea og reyna að verða goðsögn eins og Frank Lampard, John Terry eða Didier Drogba. Ég mun gera mitt besta en það er gaman þegar að við erum að vinna leiki,“ sagði Eden Hazard.

Eftir frábæra byrjun á tímabilinu undir stjórn Maurizio Sarri fataðist Chelsea aðeins flugið en liðið er nú búið að vinna þrjá af síðustu fjórum í deildinni og er í fjórða sæti með 40 stig, fjórum stigum á eftir Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×