Innlent

Þrír látnir í slysinu við Núpsvötn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá slysstað.
Frá slysstað. Adolf Ingi Erlingsson
Þrír eru látnir eftir alvarlegt umferðarslys við brúna yfir Núpsvötn. Þá eru fjórir alvarlega slasaðir en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að upplýst sé að sjö hafi verið í bílnum.

Þar segir að neyðarlínu hafi í morgun klukkan 09:42 borist tilkynning um að bíl hafi verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn, í gegnum vegrið þar og niður á árauran neðan við brúna.

Björgunarlið er komið á vettvang frá nálægum þéttbýliskjörnum og fleiri eru að lenda á vettvangi samkvæmt tilkynningu lögreglu, þar á meðal eru tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni.

„Stjórnstöð almannavarna á Suðurlandi hefur verið virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi. Suðurlandsvegur er lokaður og ljóst að svo verður eitthvað fram eftir degi vegna vinnu við björgun og rannsókn vettvangs. Engin hjáleið er í boði framhjá vettvangi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Brúin yfir Núpsvötn er mjög há, einbreið og með útskotum til að mæta bílum. Hún er löng og að stórum hluta yfir sand svo bíllinn lenti ekki úti í sjálfri ánni.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:21 með þeim upplýsingum að þrír hafi látist. Í fyrstu tilkynningu lögreglu sagði að fjórir hefðu látist en það var ekki rétt. Hefur þetta nú verið leiðrétt. Þá er staðfest að sjö hafi verið í bílnum en ekki átta eins og upplýsingar bárust um frá lögreglu á einum tímapunkti.




Tengdar fréttir

Aðkoman á slysstað skelfileg

Fjórir fullorðnir og þrjú börn voru í bílnum sem fór út af við brúna yfir Núpsvötn um klukkan 10 í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×