Sport

Sautján ára norsk skíðastökkstjarna lést um jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thea Sofie Kleven.
Thea Sofie Kleven. Vísir/Getty
Ein af mögulegum framtíðastjörnum norska skíðastökkslandsliðsins náði aldrei að halda upp á átján ára afmælisdaginn sinn.

Norska skíðsambandið sagði frá því í dag að hin sautján ára gamla Thea Sofie Kleven hafi látist um jólin.

Thea Sofie Kleven var í Ólympíuhópi Norðmanna fyrir komandi vetrarólympíuleika í Peking í Kína sem fara fram árið 2022.





„Öll skíðastökksfjölskyldan syrgir Theu og hugur okkar er fyrst og fremst hjá fjölskyldu hennar,“ sagði Clas Brede Bråten, yfirmaður norska skíðastökkslandsliðsins í fréttatilkynnigu frá norska skíðsambandinu.

„Á sama tíma er mikilvægt að við pössum upp á það að gera allt til þess að fjölskylda hennar og vinir fái frið og tíma. Við ætlum að hjálpa fjölskyldu hennar að komast í gegnum sorgarferlið. Þetta mál hefur haft mikil áhrif á okkur öll,“ sagði Bråten.

„Við munum aldrei gleyma Theu. Hún tók þátt í 2022-verkefninu okkar og átti fyrir sér bjarta framtíð í skíðstökkinu. Thea hafði allt til þess að bera til að verða alþjóðleg stjarna og þátttaka hennar í heimsbikarnum sýnir hversu mikla trú við höfðum á henni. Nú biðjum við alla að gefa fjölskyldu hennar frið um þessa jólahátíð sem hefur breyst svo skyndilega hjá okkur,“ sagði Bråten.

Norska skíðasambandið mun ekki tjá sig meira um lát Theu Sofie Kleven og ekki kemur fram hvernig hún dó. Sambandið biðlar líka til fjölmiðla að virða óskir fjölskyldu hennar um að fá að vera í friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×