Viðskipti innlent

Reiðufé gaf hvað mest af sér á árinu 2018

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ávöxtunin nam 1,8 prósentum.
Ávöxtunin nam 1,8 prósentum. Vísir/Stefán
Reiðufé var sá eignaflokkur sem gaf bestu ávöxtunina á árinu sem senn er á enda, samkvæmt greiningu bankans Bank of America Merrill Lynch. Ávöxtunin nam 1,8 prósentum en til samanburðar var ávöxtun bandarískra ríkisskuldabréfa 0,3 prósent. Aðrir eignaflokkar í úrtaki bankans skiluðu neikvæðri ávöxtun.

Greinendur bankans segja það til marks um óróleikann sem hefur einkennt fjármálamarkaði á árinu að reiðufé hafi verið sá eignaflokkur sem hafi gefið hvað mest af sér. Þeir benda á að síðast þegar reiðufé skilaði jákvæðri ávöxtun á sama tíma og ríkisskuldabréf, fyrirtækjaskuldabréf og hlutabréf hafi skilað neikvæðri ávöxtun hafi verið árið 1969.

Þeir eignaflokkar sem gáfu hvað verstu ávöxtunina á þessu ári, svo sem hlutabréf og hrávörur, skiluðu hvað bestu ávöxtuninni í fyrra. Hlutabréfavísitala MSCI í nýmarkaðsríkjum lækkaði til að mynda um 14,7 prósent í ár borið saman við 37,8 prósenta hækkun í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×