Enski boltinn

„Vírusinn“ verður áfram á Old Trafford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba verður áfram hjá Manchester United.
Paul Pogba verður áfram hjá Manchester United. getty/Robbie Jay Barratt
Manchester United ætlar ekki að selja franska landsliðsmanninn og heimsmeistarann Paul Pogba, hvorki í janúarglugganum né næsta sumar.

Ed Woodward, stjórnarformaður United, telur hann mikilvægan framtíðaráformum félagsins jafnt innan sem utan vallar og ætlar að halda Frakkanum, en þetta kemur fram í The Telegraph í morgun.

Juventus er sagt fylgjast grannt með gangi mála hjá Pogba en miðjumaðurinn var keyptur þaðan fyrir hálfu þriðja ári fyrir 89 milljónir punda en ítalskir miðlar höfðu greint frá því að Juventus gæti keypt hann aftur á 125 milljónir punda.

Barcelona hefur einnig verið áhugasamt um að fá Pogba í sínar raðir í nokkur og þá hefur franska stórliðið Paris Saint-Germain sömuleiðis verið orðað við Pogba.

Franski landsliðsmaðurinn ætlaði sér ekki að vera sekúndu lengur á Old Trafford undir stjórn José Mourinho sem kallaði Pogba „vírus“ fyrir framan leikmannahópinn eftir 2-2 jafntefli gegn Southampton 1. desember.

Pogba var á bekknum í síðustu tveimur leikjum United undir stjórn Mourinho og kom ekki við sögu en lagði upp tvö mörk í 5-1 sigri United gegn Cardiff í fyrsta leik Ole Gunnar Solskjær og skoraði svo tvö mörk í 3-1 sigri á Huddersfield á öðrum degi jóla.

Samkvæmt grein The Telegraph telja forsvarsmenn United að Pogba, Anthony Martial, Marcus Rashford og Jesse Lingard geti verið aðalmennirnir í sóknarleik liðsins næstu árin enda ungir menn og þá er Pogba auðvitað stór markaðsvara fyrir félagið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×