Enski boltinn

Segir Grétar Rafn vera bolabít sem á að breyta leikmannakaupum Everton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
getty/VI Images
Marcel Brands, yfirmaður knattspyrnumála hjá Everton, líkir Grétari Rafni Steinssyni við bolabít sem fer á eftir því að hann vill fá en Brands réði Grétar sem yfirnjósnara enska félagsins í Evrópu. Honum er ætlað stórt hlutverk þegar kemur að því að breyta leikmannakaupum Everton, að því fram kemur í viðtali við Brands í Liverpool Echo.

Brands þekkir Grétar frá dögum þeirra hjá AZ Alkmaar en Hollendingurinn var yfirmaður knattspyrnumála þar þegar að Siglfirðingurinn spilaði fyrir félagið.

Grétar gat sér gott orð sem yfirmaður knattspyrnumála hjá enska C-deildarliðinu Fleetwood en hann sagði starfi sínu lausu þar til að verða yfirnjósnari Everton í Evrópu. Hann er með sex njósnara undir sér, þar af einn í Suður-Ameríku.

Í viðtali við Liverpool Echo segir Brands frá því hvernig Grétar Rafn á að hjálpa til við að endurbyggja leikmannaferlið hjá Everton því hann sér engan leikmann ómögulegan að fá en Brands er sömu skoðunar.

„Hann er eins og bolabítur. Ef hann sér eitthvað sem að hann vill þá fer hann á eftir því. Við erum mjög líkir þegar að því kemur,“ segir Brands.

„Ég vil hafa svona fólk í kringum mig því ég hef unnið með mörgum að leikmannakaupum sem segja að að hlutirnir séu ómögulegir. Það bjóst enginn við því að við myndum fá leikmenn frá Barcelona.“

„Ég vil hafa fólk í kringum mig sem trúir að svona hlutir geti gerst og Grétar er þannig maður. Hann er maður fólksins, liðsmaður, ekki með stórt egó og vill vinna með fólki. Hann byrjaði aðeins fyrir tveimur vikum en er nú þegar búinn að hitta þrjá njósnara því hann var að ferðast og þetta líkar mér,“ segir Marcel Brands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×