Innlent

Stefnir í hart vegna auglýsingar Icelandic Wildlife Fund í Leifsstöð

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Skiltið hékk í nokkra daga uppi í Leifsstöð áður en starfsmenn Isavia tóku það niður. Textanum hefur nú verið breytt lítillega en skiltið fæst ekki sett upp.
Skiltið hékk í nokkra daga uppi í Leifsstöð áður en starfsmenn Isavia tóku það niður. Textanum hefur nú verið breytt lítillega en skiltið fæst ekki sett upp. IWF
Icelandic Wildlife Fund hefur sent Isavia kröfu um að auglýsingaskilti um villta atlantshafslaxinn verði sett upp í Leifsstöð að nýju. Annars leiti samtökin réttar síns.

Skiltið var tekið niður eftir að hafa hangið örfáa daga í komusal Leifsstöðvar síðastliðið haust. Isavia sagði auglýsinguna brot á siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa og reglum Isavia um að auglýsingar varði ekki deilumál tveggja hópa, um að upplýsingar séu ekki rangar og þær vegi hvorki að fólki né fyrirtækjum.

Samtökin leituðu til siðanefndar SÍA sem sagði skiltið hvorki hafa vegið að fólki né fyrirtækjum en að ekki yrði fullyrt hvort staðhæfingar á skiltinu væru vísindalega sannaðar.

Í kjölfarið var skiltinu breytt lítillega og svo óskað eftir uppsetningu að nýju. Isavia synjaði því. Hafa samtökin því leitað lögfræðiaðstoðar.

„Við erum búin að gera þær breytingar sem Isavia óskaði eftir þegar skiltið var tekið niður og förum ekki fram á annað en að það verði sett upp,“ segir Jón Kaldal, talsmaður IWF.

Í bréfi frá lögfræðingi IWF er þess krafist að skiltið verði sett upp í síðasta lagi í dag. Annars sjái samtökin sig tilneydd til að leita réttar síns eftir öðrum leiðum og áskilji sér einnig rétt til að krefja Isavia um bætur.




Tengdar fréttir

Umdeild mál ekki leyfð á veggjum Leifsstöðvar

Auglýsingaskilti um íslenska laxastofninn fær ekki að hanga uppi í Leifsstöð þrátt fyrir breytingar og úrskurð siðanefndar. Isavia vill ekki umdeild mál á veggjum flugstöðvarinnar. Talsmaður segir málið snúast um tjáningarfrelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×