Innlent

Ógilda leyfi legsteinasafnsins í Húsafelli og skipulag sagt ógilt

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Páll Guðmundsson á byggingarreit legsteinasafns haustið 2016 með hús nágrannana í baksýn.
Páll Guðmundsson á byggingarreit legsteinasafns haustið 2016 með hús nágrannana í baksýn. Fréttablaðið/Vilhelm

Byggingarleyfi vegna legsteinasafns Páls Guðmundssonar á Húsafelli hefur verið ógilt. Deiliskipulagið er sömuleiðis ógilt.



Fréttablaðið sagði í október 2016 frá legsteinasafninu. Húsið utan um safnið var þá í byggingu. Páll er eigandi Bæjargils og lóðarinnar Húsafells 2. Eigandi Húsafells 1 hafði í ágúst það ár kært bæði nýtt deiliskipulag frá því í janúar 2016 og byggingarleyfi sem gefið var út mánuði síðar. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði því í september 2016 að ógilda byggingarleyfið og vísað frá kröfu varðandi deiliskipulagið. Vegna álits frá umboðsmanni Alþingis frá í október 2017 tók nefndin hins vegar málið upp aftur í mars 2018.



Eigandi Húsafells 1 rekur gistiheimilið Gamla bæ, rétt norðan við lóðir Páls. Hvorki hafi „verið skilyrði til að samþykkja umrædd byggingaráform né útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa“, segir meðal annars í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um málsrök kærandans.



Borgarbyggð krafðist þess að kærunni yrði vísað frá eða því hafnað að ógilda skipulagið og byggingarleyfið. „Ekki verði séð að landnotkun á hinu deiliskipulagða svæði muni með nokkrum hætti hafa áhrif á hagsmuni kæranda en hún verði sú sama og verið hafi,“ segir um meðl annars um rök Borgarbyggðar. „Eina útsýnið sem tapist sé upp í fjallshlíðina fyrir ofan húsin sem varla hafi verulega þýðingu við mat á verðmæti hússins að Húsafelli.“

Gunnlaugur Á. Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar.Fréttablaðið/Pjetur

Úrskurðarnefndin ógilti byggingarleyfið fyrir legsteinasafninu en vísaði frá kröfum um ógildingu byggingarleyfis fyrir áðurnefnt pakkhús. Þá sagði nefndin sjálft deiliskipulagið frá 2016 aldrei hafa tekið gildi og því væri ekki hægt að ógilda það.



„Þótt leiða megi líkur að því með hliðsjón af málsatvikum að kæranda, sem kunnugur er staðháttum, hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi þá verður, að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem áður hafa verið reifuð, ekki hjá því komist að álykta sem svo að hið kærða deiliskipulag hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu,“ segir nefndin. „Á hið kærða byggingarleyfi sér því hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.“



Gunnlaugur Á. Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir úrskurðinn ekki hafa önnur áhrif en þau að vinna verði nýtt byggingarleyfi sem stenst kröfur, fara í grenndarkynningu og gefa leyfið út aftur. „Það er hægt að gefa út byggingarleyfi þótt það sé ekki deiliskipulag, það er bara undanþáguákvæði,“ útskýrir sveitarstjórinn og upplýsir að hann telji úrskurðinn ekki fréttaefni.



„Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem byggingarleyfi er fellt úr gildi,“ segir Gunnlaugur. „Þó að það verði örugglega reynt að gera stórmál úr þessu þá er þetta ekkert nýjabrum. Þannig að ef þetta er orðið fréttaefni þá er víða fréttaefni varðandi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×