Enski boltinn

Maðurinn sem meiddi Joe Gomez: Við getum ekki tekið tæklingar úr fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben Mee í leiknum á móti Liverpool.
Ben Mee í leiknum á móti Liverpool. Vísir/Getty
Liverpool maðurinn Joe Gomez verður frá í sex vikur eftir harða tæklingu Burnley leikmannsins Ben Mee í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í síðustu viku. Ben Mee hefur nú tjáð sig um tæklingu sína og gagnrýnina.

Joe Gomez fór af velli eftir aðeins 23 mínútna leik með brákað bein í fæti þökk sé tæklingunni frá Ben Mee.

Liverpool lenti undir í leiknum á móti Burnley en tókst að landa sigri og komst síðan á toppinn með sigri á Bournemouth um helgina.





„Ég tel að það hafi ekkert verið að tæklingunni minni. Við gerum ekki tekið tæklingar úr fótboltanum,“ sagði Ben Mee við BBC.

Jüurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ósættur við háskalegar tæklingar Burnley manna á blautu grasinu og biðlaði meðal annars til dómara leiksins að taka á þessu.

En var þessi tækling Ben Mee hættuleg? „Svona tæklingar eru bara hluti af leiknum. Ég hef séð leikmenn Liverpool kveikja í sínum stuðningsmönnum með tæklingum. Að mínu meti getur þú spilað af háttvísi en samt látið finna fyrir þér,“ sagði Ben Mee.

„Við erum í botnbaráttu deildarinnar og verðum að komast þaðan. Við gefum því allt okkar í leikina. Þetta var óheppilegt og ég óska honum góðs bata,“ sagði Ben Mee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×