Enski boltinn

Klopp hrósar Raheem Sterling fyrir það hvernig hann brást við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling.
Raheem Sterling. Vísir/Getty
Raheem Sterling hefur ekki verið ofarlega á vinsældarlista stuðningsmanna Liverpool síðan að hann yfirgaf Anfield en hann fékk mikið hrós frá Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, á blaðamannafundi í dag.

Jürgen Klopp var mjög ánægður með viðbrögð Raheem Sterling við kynþáttarníðinu sem enski landsliðsmaðurinn varð fyrir að hálfu áhorfenda í leik Manchester City á móti Chelsea um helgina.

„Ég horfði á leikinn og sá þegar hann fór út að hornfána og nokkrir voru að öskra á hann. Ég heyrði ekki hvað þeir sögðu og veit ekki hvort það var einhver möguleiki á að heyra það. Viðbrögð hans voru aftur á móti frábær,“ sagði Jürgen Klopp.





„Við sáum andlitið hans og hann gerði það rétta með því að sýna þessu fólki engin svipbrigði. Þetta fólk á ekki skilið að kalla fram viðbrögð því svona á engin viðbrögð skilið,“ sagði Klopp.

„Það kemur mér auðvitað ekki á óvart að svona hlutir gerist enn í dag en ég er ánægður með að við setjum mörkin og segjum að fólk getur ekki sagt hvað sem er,“ sagði Klopp.

„Það hafa komið upp avik í Þýskalandi og öðrum löndum eins og með Boateng á Ítalíu þegar hann hætti að spila af því að það var öskrað á hann úr stúkunni,“ sagði Klopp.

„Við verðum að refsa fólki fyrir svona framkomu. Á meðan fólk er enn það vitlaust að gera svona þá kallar það á refsingu. Ég er viss um að 95 prósent af fólki gerir ekki svona. Hin sem gera þetta eiga skilið refsingu en við megum heldur ekki tala of mikið um þau því þau eiga það ekki heldur skilið,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×