Fótbolti

Heimir: Var mest svekktur að missa af Vancouver

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir á blaðamannafundi er hann stýrði íslenska landsliðinu.
Heimir á blaðamannafundi er hann stýrði íslenska landsliðinu. vísir/vilhelm
Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og nýráðinn þjálfari Al Arabi, segir að hann hafi verið mest svekktur að missa af starfinu hjá Vancouver Whitecaps í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Heimir var fyrr í dag tilkynntur sem þjálfari Al Arabi sem leikur í Katar en samningur Heimis er til sumarsins 2021 svo hann mun að minnsta kosti starfa þar í tvö og hálft ár.

Edda Sif Pálsdóttir, fréttakona RÚV, hitti Heimir á dögunum og ræddi við hann en brot úr viðtalinu var spilað í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 fyrr í dag. Hvað var það sem dró Heimir til Katar?

„Það var eins og ég sagði þegar ég hætti með íslenska landsliðið að það var ósk mín að þjálfa félagslið, helst í enskumælandi landi og þetta starf tikkar í bæði þessi box. Siggi Dúlla sagði að ég myndi fara þangað sem væri heitt og þetta tikkar í það líka,“ sagði Heimir í viðtalinu.

Heimir var orðaður við nokkur félög, til að mynda Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni og Vancouver Whitecaps í MLS-deildinni, og segir Heimir að hann hafi verið svekktur að hafa ekki náð að landa samningi þar.

„Það var Vancouver sem var ég var mest svekktur við að missa af. Þetta var skemmtilegt verkefni og að byggja upp nýtt lið í MLS-deildinni. Ég og Íris, konan mín, kunnum vel við borgina svo það var smá svekkelsi að missa það starf.“

„En svo dettur þetta inn í staðinn. Hérna er geggjað umhverfi, sterkur klúbbur og fólk sem hefur mikinn metnað að rífa hann upp og tilbúið að gera mikið til að rífa hann upp. Það er gaman að fá að taka þátt í svona metnaðarfullu verkefni.“

Peningarnir eru í miklu í Katar og Heimir fer ekkert í felur með það að þeir hafi spilað sinn þátt í ákvörðun sinni að fara til Katar en það hafi þó ekki raðið úrslitum.

„Ég ætla ekkert að tala í kringum það. Auðvitað skiptir máli hvernig þú færð borgað fyrir starf þegar þú ert að binda þig hérna í þrjú ár. Það var hins vegar ekki það sem réði úrslitum.“

„Það voru aðstaðan og þau tækifæri hér sem eru að bæta okkur, þroskast og læra. Það hreyf mig og fjölskylduna að koma hingað og sjá þær aðstæður sem við eigum eftir að vinna við næstu þrjú árin,“


Tengdar fréttir

Heimir ráðinn þjálfari Al Arabi

Heimir Hallgrímsson er orðinn þjálfari Al Arabi í Katar. Félagið staðfesti ráðningu Heimis nú rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×