Erlent

Macron ávarpar þjóðina: Lofar að hækka lágmarkslaun og gera breytingar á skattkerfinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Macron ætlar að hækka laun þeirra lægst launuðu um hundrað Evrur í hverjum mánuði frá ársbyrjun 2019 og þá hyggst hann hætta við ætlaða skattahækkun á eftirlaunaþega.
Macron ætlar að hækka laun þeirra lægst launuðu um hundrað Evrur í hverjum mánuði frá ársbyrjun 2019 og þá hyggst hann hætta við ætlaða skattahækkun á eftirlaunaþega. Vísir/ap
Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti ávarp vegna mótmælanna sem kennd eru við gulu öryggisvestin. Í ávarpinu sem var streymt á Facebooksíðu forsetans lofaði hann að hækka lágsmarkslaun og gera breytingar á skattkerfinu í þágu láglaunafólks.

Fjórðu helgina í röð mótmæltu hinir svokölluðu „gulvestungar“ Frakklandsforseta og ríkisstjórn hans. Í upphafi beindust mótmælaaðgerðirnar að hækkuðum álögum á eldsneyti en hafa síðan þróast út í almenna óánægju með efnahagsstefnu landsins.

Macron hyggst hækka laun þeirra lægst launuðu um hundrað Evrur í hverjum mánuði frá ársbyrjun 2019 auk þess að gera breytingar á skattkerfinu í þágu láglaunafólks. Þá hyggst hann afturkalla skerðingar á eftirlaunum.

Landmenn fylgdust spenntir með ávarpi Frakklandsforseta sem var í beinni útsendingu í sjónvarpinu.Vísir/getty
Macron sagðist skilja hina miklu reiði mótmælenda sem ætti fullan rétt á sér. Mótmælendur upplifðu að ekki væri hlustað á raddir þeirra. 

Frakklandsforseti sagði að hann gæti hafa gefið þjóðinni ástæðu til að ætla að láglaunafólk væri ekki efst á forgangslistanum.

„Ég veit að orð mín hafa sært sum ykkar,“ segir Macron sem ætlar að koma til móts við kröfur mótmælenda og bæta samskiptin við almenning í landinu.

Í dag fundaði Macron með framámönnum í viðskiptalífinu og verkalýðsleiðtogum til að undirbúa ávarpið.

Mótmælin á laugardag einkenndust af skemmdarverkum og óeirðum. Kveikt var í bílum, rúður voru brotnar og skemmdir voru unnar á verslunum og veitingastöðum. Vest var ástandið í Parísarborg en einnig var mótmælt í Marseille, Bordeaux, Lyon, Nantes, Dijon og Toulouse.


Tengdar fréttir

Mikill viðbúnaður fyrir mótmælin í dag

Mótmælendur sem kalla sig Gulu vestin ætla að halda áfram að mótmæla ríkisstjórn Emmanuels Macron jafnvel þó að hann hafi lúffað fyrir þeim með skatta á eldsneyti í vikunni.

Tæplega 1.700 handtekin í mótmælunum: „Macron, segðu af þér“

Tæplega 17.00 mótmælendur voru handteknir í mótmælum gulvestunga í Frakklandi í gær og 1.220 manns eru enn í haldi lögreglu. Þetta var fjórði laugardagurinn í röð sem mótmælin eru haldin en gærdagurinn einkenndist af hörðum átökum óeirðarlögreglu og mótmælenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×