Innlent

Stal jakka og klæddist honum í seinna innbrotinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jakkinn var merktur fyrirtæki.
Jakkinn var merktur fyrirtæki. Vísir/Vilhelm
Tilkynnt var um tvö innbrot í íbúðir í hverfi 103 á ellefta tímanum í gærkvöldi. Farið hafði verið inn í íbúðirnar, rótað í eigum og munum stolið. Innbrotin uppgötvuðust er húsráðendur komu heim og eru málin í rannsókn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá bárust lögreglu tilkynningar um tvö innbrot í bifreiðar í miðborginni. Talið er líklegt að um sama þjófinn sé að ræða í báðum tilvikum. Tilkynnt var um annað innbrotið klukkan 23:13 en eigandi bifreiðarinnar kom að þjófnum inni í henni. Sá síðarnefndi hljóp af vettvangi og er sagður hafa verið klæddur jakka merktum fyrirtæki.

Tilkynning barst um hitt innbrotið um klukkustund síðar en þar hafði verið stolið jakka sem svarar til lýsingarinnar að ofan. Þar kom eigandinn að brotinni rúðu en þjófurinn var þá á bak og burt.

Einnig voru nokkrir ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna eða áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×