Erlent

Hundruð lögreglumanna leita árásarmannsins í Strassborg

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Lögreglumaður gætir vettvangs við jólamarkaðinn á Kléber-torgi þar sem voðaverkið var framið.
Lögreglumaður gætir vettvangs við jólamarkaðinn á Kléber-torgi þar sem voðaverkið var framið. Vísir/EPA
Mikil leit er nú gerð að byssumanni sem skaut á fólk á jólamarkaði í frönsku borginni Strassborg í gærkvöldi. Lögreglan telur sig vita hver þarna var að verki en hann myrti þrjá og særði tólf á markaðnum áður en honum tókst að flýja eftir skotbardaga við hermenn og lögreglu. Talið er að maðurinn sé særður.

Innanríkisráðherra Frakka, Christophe Castaner, segir að eftirlit hafi verið hert til muna á landamærum Frakklands og að löggæsluyfirvöld séu á hæsta viðbúnaðarstigi. Þá hefur öryggi á jólamörkuðum, sem eru í flestum bæjum og borgum landsins, verið hert til muna.

Sex þeirra sem særðust í árásinni á Kléber-torgi gærkvöldi eru sagðir í alvarlegu ástandi. Nafn mannsins hefur ekki verið gefið upp en hann er sagður tuttugu og níu ára gamall innfæddur íbúi í Strassborg sem lögregla hafði þegar undir eftirliti, vegna gruns um að áforma hryðjuverk. Fyrr um daginn hafði maðurinn flúið þegar lögregla kom heim til hans til að gera húsleit vegna ráns sem framið var í borginni. Handsprengjur fundust í íbúð hans.

Hundruð lögreglumanna taka þátt í leitinni að morðingjanum. Ekki er vitað hvað honum gekk til, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×