Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Grótta 32-25 │Eyjavélin farin að malla

Einar Kárason skrifar
Theodór Sigurbjörnsson.
Theodór Sigurbjörnsson. Vísir/Vilhelm
Allt var undir þegar ÍBV og Grótta mættust í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn var þriðja viðureign liðanna á tímabilinu en leikurinn í dag var í Coca Cola bikarnum.

Leikurinn hófst af krafti en jafnt var fyrstu mínútur leiksins. Eyjamenn urðu þó fyrir áfalli strax í upphafi þegar Sigurbergur Sveinsson þurfti að fara af velli og lék ekki meira það sem eftir lifði leiks. Það kom þó ekki að sök en lið ÍBV sýndi kraft og gæði í vörn og sókn og tóku leikinn sér í hendur hægt og rólega.

Kári Kristján Kristjánsson átti frábæran fyrri hálfleik í liði ÍBV en liðsfélagar hans fundu hann í sífellu niðri á línu, þar sem hann er gífurlega sterkur og fór hann fyrir liðinu sem leiddi í hálfleik með 2 mörkum 18-16. Allt opið ennþá.

Gróttumenn áttu fínan fyrri hálfleik og héldu vel í Eyjamenn en upphaf síðari hálfleiks varð þeim að falli. Gestirnir skoruðu sitt 17. mark á 45mínútu leiksins, eða eftir 15mínútna þurrk í seinni hálfleiknum. Eyjamenn höfðu á þeim tíma skorað 7 mörk og róðurinn því afar erfiður fyrir Gróttu.

Hart var barist og fóru tvö bein rauð spjöld á loft og algengt var að menn lágu eftir í gólfinu.

Lokakafli leiksins var hálfgert formsatriði fyrir ÍBV sem kláraði leikinn með 7 marka sigri, 32-25, en mest hafði liðið 10 marka forskot.

Af hverju vann ÍBV?

Liðið virðist vera að finna taktinn eftir arfaslaka byrjun og virkaði þétt og gott í dag þrátt fyrir að vantað hafi í hópinn. Vörnin stóð sterk, sóknin gerði sitt og markvarslan var í fínu lagi. Gróttumenn þurfa eitthvað að fara yfir þennan síðari hálfleik.

Hvað gekk illa?

Færanýting Gróttu var skelfilega í síðari hálfleiknum. Hvert skipti sem Eyjamenn gerðust sekir um mistök og töpuðu boltanum náðu gestirnir engan veginn að nýta sér það.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍBV var Theodór Sigurbjörnsson markahæstur með 9 mörk, en honum fylgdu Kári Kristján og Fannar Þór Friðgeirsson með 8 og 7 mörk. Þess má geta að næst markahæstu menn liðsins voru með 2 mörk skoruð. Björn Viðar Björnsson varði 10 bolta í markinu.

Eyjamaðurinn Ágúst Emil Grétarsson skoraði 5 mörk fyrir Gróttu.

Hvað gerist næst?

Einfalt. Grótta einbeitir sér að Olís deildinni á meðan Eyjamenn halda áfram í næstu umferð bikarkeppninnar.

Kristinn Guðmundsson: Eitt gott skref

„Við tókum eitt gott skref frá síðasta leik á móti Gróttu og erum að þéttast og það er rosalega gott,” sagði Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV eftir leik.

Eyjamenn voru sterkari aðilinn í leiknum sem endaði með 7 marka sigri, sem hefði þó mögulega getað orðið stærri.

„Við ákváðum að hvíla leikmenn og það var kannski farið að þynnast aðeins í þessu hjá okkur. Rauða spjaldið hans Robba (Róberts Sigurðssonar) og Beggi meiddist bara í fyrstu vörn. Við vorum bara að hugsa um að þetta er bikarinn og það skiptir ekki hvort maður vinni með 10 eða 5, þó maður vilji alltaf klára þetta almennilega en við gátum rúllað á hópnum.”

„Það þynnist kannski eitthvað liðið okkar en það er engin afsökun fyrir því að geta ekki spilað almennilega handbolta. Við gerum það hérna í dag þó við lendum í áföllum. Við eigum ekkert að geta skýlt okkur á bak við það þó það vanti eitthvað. Við spiluðum frábæra 5-1 vörn með Magnús Stefánsson fyrir framan.”

„Þetta þýðir þá kannski væntanlega að við erum andlega á betri stað en við vorum.”

Kristinn sagðist ekki eiga neina óskamótherja en að heimaleikur væri kjörinn. ,,Ég hef sagt það áður það er ótrúlegt að þegar við vorum í mesta baslinu eftir að hafa tapað á móti KA og Haukum að við fáum Fram á heimavelli og þá er hlaðið í eldvörpur í innhlaupi og það er full stúka.”

„Þetta fólk er einstakt svo maður óskar eftir að fá sem allra flesta leiki hér til þess að berjast fyrir þetta fólk,” sagði Kristinn að lokum.

Einar Jónsson: Eyjamenn voru miklu betri við

Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, var skiljanlega svekktur að leikslokum.

„Eyjamennirnir voru bara miklu betri en við og áttum sigurinn bara fyllilega skilið. Við náðum okkur eiginlega aldrei á strik. Fínn kafli undir lok fyrri hálfleiks. Svo förum við með einhver 3 dauðafæri á fyrstu 5 mínútum seinni hálfleiks og í staðinn fyrir að jafna eða komast yfir þá þeir bara keyrðu yfir okkur, því miður.”

Leikurinn í dag var þriðji leikur liðanna á tímabilinu, en liðum áttust einnig við í síðustu umferð í deild.

„Við, að mínu mati, vorum sjálfum okkar verstir að vinna ekki leikinn heima síðast, en í dag erum við langt frá okkar besta. Sérstaklega seinni hálfleikurinn er kannski okkar slakasta frammistaða að mörgu leyti í vetur. Eyjamennirnir bara mjög flottir þannig að, stundum er þetta bara svona,” sagði Einar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira