Innlent

Ný skýrsla blæs á fjögurra milljarða króna mun á leiðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Í nýju skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við Þ-H leiðina um Teigsskóg og R-leiðin með brú yfir mynni Þorskafjarðar sé sambærilegur.
Í nýju skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við Þ-H leiðina um Teigsskóg og R-leiðin með brú yfir mynni Þorskafjarðar sé sambærilegur. Grafík/Hlynur Magnússon
Brú yfir mynni Þorksafjarðar, svokölluð R-leið, er vænlegasta leiðin fyrir Vestfjarðarveg samkvæmt niðurstöðu skýrslu verkfræðistofunnar Viaplan. Lilja Guðríður Karlsdóttir verkfræðingur á stofunni vann valkostagreiningu fyrir Vestfjarðarveg að beiðni sveitastjórnar Reykhólahrepps. Ólíkt Vegagerðinni, sem telur Reykhólaleiðina fjórum milljörðum dýrari en ÞH-leiðina um Teigsskóg, telur Lilja Guðríður að kostnaður sé sambærilegur.

Nýja skýrslan sem Viaplan vann fyrir Reykhólahrepp styður við álit norskrar verkfræðistofu þess efnis að leið um Reykhólahrepp sé ekki síður fýsilegur kostur en leið um Teigskóg. Eftir stendur fjögurra milljarða króna ágreiningur á áþekkum leiðum um hreppinn, R-leið og A3 leið.

Tuttugu ára saga

Undirbúningur að framkvæmdum við veginn hefur staðið í tæp tuttugu ár. Þangað til í ár stóð valið á milli Teigsskólaleiðarinnar og Gangnaleiðar, D2. Báðar eru tillögur Vegagerðarinnar.

Vorið 2018 leitaði Reykhólahreppur til norskrar verkfræðistofu, Multiconsult, sem lagði til Reykhólaleið R sem sáttakost í júní. Multiconsult áætlar að Reykhólaleið R kosti 6,9 milljarða á móti 6,4 milljörðum fyrir Teigsskógsleið á verðlagi 2016.

Vegagerðin lagði svo til tillögu að Reykhólaleið, A3, sem liggur í mjög svipuðu vegastæði og Reykhólaleið R frá Multiconsult. Kostnaðarmunurinn er þó töluverður en Vegagerðin telur A3 leiðina kosta 11,2 milljarða króna eða rúmum fjórum milljörðum meira en Multiconsult áætlar í R-leiðina.

„Erfitt er að bera saman kostnaðinn á milli Reykhólaleiða R og A3 og Teigsskógsleiðar, þar sem Vegagerðin nýtir ekki sama kostnaðargrunn fyrir A3 og áður,“ segir í skýrslu Viaplan.“

Helsti ágreiningurinn á milli Vegagerðarinnar og Multiconsult, snýr samkvæmt Viaplan að brúartegundinni yfir Þorksafjörð og hins vegar því hvort hægt sé að nýta Reykhólasveitarveg eða þurfi að endurbyggja að stórum hluta. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í október var fjallað um skoðun Vegagerðarinnar á R-leiðinni og tillögunni um A3 leið um Reyhólahrepp.

Teigsskógarleiðin er komin á dagskrá samgönguáætlunar fyrir næsta ár. Í ljósi afar skiptra skoðana á svæðinu má telja ólíklegt að framkvæmdir við nýja leið gætu hafist fyrr en eftir tvö til þrjú ár.

Sveitastjórn Reykhólahrepps segir í tilkynningu til fjölmiðla að sveitastjórnin hafi samkvæmt ráðleggingum Skipulagsstofnunar látið gera valkostagreiningu á leiðarvali Vestfjarðarvegar 60 um Reykhólahrepp.

„Þetta var gert til að draga upp skýra, aðgengilega og hlutlæga mynd af þeim valkostum sem liggja fyrir varðandi Vestfjarðarveg 60. Til þess var fenginn óháður aðili sem ekki hefur áður komið að vinnu við V60 og engra hefði hagsmuna að gæta.“

Leiðirnar fjórar sem bornar eru saman í nýju skýrslunni.Viaplan
Valkostagreiningin fólst í mati á tæknilegum, skipulagslegum, umhverfislegum, félagslegum og hagrænum þáttum fjögurra leiða:

Gangaleið D2, Teigskógarleið ÞH, Reykhólaleið Vegagerðarinnar A3 og Reykhólaleið Multiconsult R. Niðurstaða valkostagreiningar Viaplan liggur nú fyrir.

Helstu niðurstöður í skýrslunni sem sveitastjórn Reykhólahrepps keypti:

•Vænlegasti leiðarvalkosturinn er R-leið. R-leiðin sýnir betri niðurstöður fyrir tæknilega, skipulagslega, hagræna, umhverfislega og félagslega þætti en hinir kostirnir.

•R-leið uppfyllir best markmið samgönguáætlunar samkvæmt lögum um samgönguáætlun. 

•Allar leiðir munu hafa jákvæð áhrif á samgöngur, byggðaþróun og ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. R og A3 munu auk þess hafa mikil jákvæð áhrif á samgöngur, byggðarþróun og ferðaþjónustu á Reykhólum sem hinar gera ekki.

•Rekstrarkostnaður er minni á R-leið og A3 en á hinum.

•Skólaakstur skólabílsins sem er fyrir börn sem fara um Gufudalssveit minnkar úr 108 km á dag í 58 km á dag með R-leið. Þetta er 86% stytting frá því sem er í dag.

•Allar leiðirnar sem bornar eru saman í valkostagreiningunni stytta leiðina á sunnanverðum Vestfjörðum. Munurinn á leiðunum upp á þá styttingu er óverlegur eða um 2%. Þegar Dýrafjarðargöng verða tilbúin og farin R-leiðin yrði akstursleið íbúa frá Reykhólum til Ísafjarðar 175 km í stað 246 km.

•Formlegt leyfisveitingarferli á ÞH leiðinni er komið lengra á veg en á hinum.

•Kostnaður sambærilegur þegar kemur að ÞH og R-leið hvort sem farið verði í lagfæringar á Reykhólavegi strax eða ekki, enda fylgi sá kostnaður öllum leiðum.

•Mælt er með því að Vegagerðin bæti verkferla sína í mörgum þáttum, rannsaki allar leiðir til hlýtar og skýri mörg atriði betur til að auðvelda ákvörðunartöku í málinu.

„Reykhólahreppur harmar að klausan um betri samgöngur innan hreppsins frá matsskýrslu Vegagerðarinnar 2005 hafi verið tekin út í matskýrslu 2017 þrátt fyrir að lög um samgönguáætlanir kveði skýrt á um að samgögur skuli stuðla að jákvæðri byggðarþróun,“ segir í tilkynningunni.

Ný skýrsla Viaplan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×