Erlent

Fyrrverandi lögmaður Trump fær þriggja ára dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump.
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump. AP/Julie Jacobson
Dómstóll í New York dæmdi í dag Michael Cohen, fyrrverandi lögmann Donald Trump Bandaríkjaforseta, í þriggja ára fangelsi.

Cohen játaði að hafa gerst sekur um brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Cohen var ómyrkur í máli þegar dómur var kveðinn upp þar sem hann úthúðaði forsetanum. Sagði hann Trump hafa fengið hann til að „feta myrka braut í stað bjartrar“. Það hafi verið hans veikleiki að hafa sýnt Trump gagnrýnislausa hollustu.

Laug að þingnefnd

Cohen játaði í lok nóvember að hafa logið að þingnefndum um fasteignaverkefni sem Trump og fyrirtæki hans unnu að í Moskvu á sama tíma og hann var í forsetaframboði. Sagðist hann hafa logið til þess að styðja við opinberar yfirlýsingar Trump um að hann hefði ekki átt í neinum viðskiptum í Rússlandi.

Í lok sumars játaði Cohen á sig brot á kosningalögum sem tengdust greiðslum til klámmyndaleikkonu sem sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump. Cohen gerði þá samkomulag við saksóknarann Roberts Mueller um samvinnu í skiptum fyrir mildari refsingu.


Tengdar fréttir

Saksóknarar vilja koma Cohen bak við lás og slá

Saksóknarar í máli Michaels Cohen, fyrrum lögmanns Donald Trump, telja æskilegt að Cohen, verði dæmdur til talsverðrar fangelsisvistar fyrir glæpi sem "Rússarannsóknin“ svokallaða hefur leitt í ljós að hann framdi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×