Menning

Drengjakollurinn flottur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þorgerður og Bára hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlauna fyrir nýju bókina um hárið.
Þorgerður og Bára hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlauna fyrir nýju bókina um hárið. Fréttablaðið/Anton Brink
Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi eftir sagnfræðingana Báru Baldursdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur er komin út, aðgengileg bók, prýdd fjölda mynda.

„Bókin um hárið var skemmtilegt verkefni,“ segir doktor Þorgerður H. Þorvaldsdóttir sagnfræðingur um Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi sem hún skrifaði ásamt Báru Baldursdóttur sagnfræðingi sem einnig er menntuð hárgreiðslukona.

Þorgerður segir bókina skiptast í tíu kafla. „Við förum yfir allt sviðið. Tókum viðtöl við yfir hundrað einstaklinga meðan bókin var í smíðum og það er kannski mikilvægasti heimildagrunnurinn og auðvitað notuðum við líka alls konar rit, dagblöð, tímarit, fundargerðarbækur og allt mögulegt sem tengist þessu fagi. Niðurstaðan er tæpar 400 blaðsíður.“

Framan af var háriðn tvískiptur heimur að sögn Þorgerðar. Rakarastofan var vettvangur karla og hárgreiðslustofan kvennavettvangur. Það var afskaplega lítill samgangur þar á milli. Svo breyttist það smám saman í áranna rás og í byrjun 10. áratugarins voru fögin sameinuð og hársnyrtiiðn er sameiginlegur vettvangur.“

Skemmtilegast var að taka viðtölin að mati Þorgerðar. „Fólk tók okkur svo vel og treysti okkur fyrir sögum og myndum. Það eru um 200 myndir í bókinni, margar úr einkasöfnum.“

Spurð hvaða hártíska henni hafi þótt eftirtektarverðust svarar Þorgerður: „Mér finnst drengjakollurinn á þriðja áratugnum flottur, það fylgir honum mikil frelsissaga þegar konurnar ákveða að klippa hárið. Svo eru túperingarnar á 7. áratugnum tilkomumiklar. Einn kaflinn heitir Túperingar, tvær hæðir og ris. Bítlahártískan var líka stórt skref og byrjunin á því að strákar færu á hárgreiðslustofur, því konurnar kunnu að særa, en rakararnir höfðu tilhneigingu til að klippa stutt.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×