Erlent

Tveir Kanadamenn í haldi í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Michael Spavor.
Michael Spavor. Vísir/AP
Yfirvöld Kína hafa handtekið tvo Kanadamenn og saka þá um að ógna öryggi Kína. Þeri Michael Spavor og Michael Kovrig eru í haldi en Utanríkisráðuneyti Kanada hefur ekki tekist að ná sambandi við þá að öðru leyti en að Spavor hringdi til Kanada og sagði að hann væri í yfirheyrslu í Kína. Mennirnir voru handteknir á mánudaginn.

Handtökurnar eru reknar til þess að Meng Wanzhou, fjármálastjóri kínverska fyrirtækisins Huawei og dóttir stofnanda þess, var handtekin í Vancouver í byrjun mánaðarins og stendur til að framselja hana til Bandaríkjanna.

Kínverjar hafa mótmælt handtökunni harðlega og sakað yfirvöld Kanada um að brjóta á mannréttindum Meng. Sömuleiðis hafa yfirvöld Kína heitið alvarlegum en ótilgreindum afleiðingum, sleppi Kanadamenn Meng ekki úr haldi. Bandaríkin hafa hana þó grunaða um að brjóta gegn refsiaðgerðum gegn Íran.

Samkvæmt CBC í Kanada staðfesti Lu Kang, talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína, handtökurnar í nótt en neitaði hann að segja hvort að þeir Spavor og Kovrig hefðu fengið lögfræðinga. Þegar hann var spurður hvort handtökurnar tvær kæmu handtöku Meng einhvern veginn við, sagði hann eingöngu að mál Kanadamannanna tveggja væru rekin eftir kínverskum lögum.



Spavor rekur fyrirtæki í Kína sem skipuleggur ferðir til Norður-Kóreu og Kovrig er fyrrverandi erindreki og var að vinna fyrir alþjóðlega hugveitu.

 


Tengdar fréttir

Trump gæti leyst Huawei-stýru úr haldi

Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, var látin laus gegn tryggingu í Kanada í gær. Ellefu dagar eru nú liðnir frá því hún var handtekin, að beiðni Bandaríkjamanna, grunuð um að hafa afvegaleitt banka um ítök Huawei í Íran og þar með þá í hættu á því að brjóta gegn viðskiptaþvingunum.

Kanada sver af sér tengsl við handtökuna

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að ríkisstjórn hans hafi ekki komið nálægt handtökunni á Meng Wanzhou, fjármálastjóra kínverska tæknifyrirtækisins Huawei. Meng var handtekinn á flugvellinum í Vancouver á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×