Enski boltinn

Löng bið á enda hjá Laurent Koscielny í leik á móti Hannesi og félögum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laurent Koscielny.
Laurent Koscielny. Vísir/Getty
Franski miðvörðurinn Laurent Koscielny snýr aftur í aðallið Arsenal í dag eftir sjö mánaða fjarveru.

Laurent Koscielny sleit hásin 3. maí síðastliðinn í seinni undanúrslitaleiknum á móti Atlético Madrid í Evrópudeildinni. Laurent Koscielny hafði verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu sem og undanfarin ár.

Koscielny missti fyrir vikið að síðustu leikjum tímabilsins sem og heimsmeistaramótinu með Frökkum en franska liðið fór þar alla leið og varð heimsmeistari.

Laurent Koscielny spilaði með 21 árs liði Arsenal í síðustu viku og er búin að ná sér að fullu af hásinarmeiðslunum.





Laurent Koscielny kemur inn í byrjunarlið Arsenal í kvöld á móti Hannesi Þór Halldórssyni og félögum í Qarabag. Hannes hefur staðið í markinu í síðustu tveimur leikjum Qarabag í Evrópudeildinni en var ekki með í fyrri leiknum á móti Arsenal.

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, staðfesti endurkomu Koscielny á blaðamannafundi fyrir leikinn en hann var hinsvegar ekki tilbúinn að gefa það út hvað hann ætlar að gera með Mesut Özil í leiknum kvöld sem fer fram á heimavelli Arsenal.  BBC segir frá.

Aaron Ramsey ætti að koma til baka eftir meiðsli en Arsenal verður án þeirra Konstantinos Mavropanos, Danny Welbeck og Shkodran Mustafi.

Það vantar líka Rob Holding sem meiddist illa á dögunum en Holding, Mavropanos og Mustafi eru allir miðverðir og því kemur endurkoma Koscielny sér vel.





„Við ætlum að skoða hvort hann geti spilað 90 mínútur í þessum leik,“ sagði Unai Emery um möguleikann á því að Laurent Koscielny spili líka á móti Southampton á sunnudaginn.

„Við getum notað annan leikmann í þessari stöðu, eins og sem dæmi Nacho Monreal sem hefur spilað sem miðvörður á sínum ferli,“ sagði Emery en Nacho Monreal spilar vanalega sem bakvörður.

„Við munum taka þessa ákvörðun þegar við þurfum þess en nú þurfum við bara að hugsa um þennan leik og sjá hvernig honum líður eftir hann,“ sagði Emery.

Leikur Arsenal og Qarabag hefst klukkan 20.00 að íslenskum tíma en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×