Viðskipti innlent

Telur Skúla hafa skamman tíma til að bjarga WOW air

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skúli Mogensen í höfuðstöðvum WOW air í dag.
Skúli Mogensen í höfuðstöðvum WOW air í dag. vísir/vilhelm
Sveinn Þórarinsson, hlutabréfasérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að uppsagnir WOW air í morgun hafi ekki komið á óvart.

 

Flugfélagið sagði upp 111 fastráðnum starfsmönnum og yfir 200 verktökum og starfsmönnum á tímabundnum samningi. Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi flugfélagsins, sagði í viðtali við fréttastofu að dagurinn væri sorglegur en nauðsynlegur til þess að tryggja framtíð WOW air.

„Við vorum búnir að skrifa um það sjálfir og gefa það út að við myndum sjá líklega  fram á einhvers konar framboðsminnkun hjá báðum flugfélögum, sérstaklega væntanlega hjá WOW, að það færi í einhvers konar endurskipulagningu af því að við sáum að það var ákveðið offramboð, sérstaklega á ákveðnum flugleiðum,“ segir Sveinn í samtali við Vísi.

Sveinn Þórarinsson er hlutabréfasérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans.

„Í þessu ástandi kemur í raun fátt á óvart“

Vélum WOW air fækkar úr tuttugu í ellefu með hagræðingaraðgerðunum sem kynntar voru í dag. Sveinn segir að uppsagnirnar séu hlutfallslega ekki miklar miðað við fækkun véla og það sé jákvætt. Hann kveðst aðspurður hreinlega ekki vita hvort að fleiri uppsagnir séu í kortunum.

„Í þessu ástandi kemur í raun fátt á óvart. Þetta er svolítið í hendi flugfélaganna sem sjá bókunarstöður og eru að gera sitt leiðakerfi fyrir næsta ár. Það eru náttúrulega bara stjórnendur þessara fyrirtækja sem að ákveða þetta,“ segir Sveinn en bendir á að fækkun véla hjá WOW air þýði töluvert minna framboð af flugferðum hingað til lands.

Enn sé þó of snemmt að segja til um það hvaða áhrif það muni hafa á fjölda ferðamanna hér á landi eða á efnahagslífið almennt.

„Eina sem er klárt er að ef þetta plan hjá WOW air gengur að keyra á ellefu vélum í stað tuttugu þá mun félagið væntanlega flytja inn færri ferðamenn til Íslands, að óbreyttu. En ef það verður enn eftirspurn til staðar þá eru hugsanlega önnur flugfélög sem eru tilbúin til að grípa það. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Sveinn. Þetta sé í raun óþægilegasti óvissuþátturinn nú, það er hvernig flugumferðin verði hér næsta sumar.

Ekkert varð af kaupum Icelandair á WOW air í nóvember síðastliðnum en segja má að óvissa hafi ríkt um framtíð WOW allt frá því í ágúst.VÍSIR/VILHELM

Mjög langt frá því að allt sé að fara í vaskinn

Sveinn kveðst þó halda að það sé erfitt að sjá mikla fjölgun ferðamanna hér á landi á næsta ári. Það þurfi þó ekki endilega að vera nauðsynlegt þar sem mikil fjölgun hafi verið síðustu ár.

„Þannig að það er kannski bara gott fyrir alla að anda og að það verði ákveðin hagræðing. Þetta er kannski bara fyrsti liðurinn í því að einhverju leyti. En að það séu frekari fjöldauppsagnir í kortunum og að allt sé að fara í vaskinn, það er mjög langt frá því að hægt sé að teikna þá mynd upp núna.“

WOW air á í samningaviðræðum við bandaríska félagið Indigo Partners um að fjárfesta í félaginu. Sveinn telur að Skúli hafi ekki langan tímaramma til þess að landa þeim samningi.

„Ég myndi segja að þetta þyrfti að klárast allavega fyrir áramót. Ég get ekki ímyndað mér annað en að menn séu að reyna að gera þetta eins hratt og hægt er,“ segir Sveinn.

Einn óvissuþátturinn varðandi hagræðingu WOW air er fjöldi flugferða hingað til lands næsta sumar.vísir/vilhelm

Ákveðinnar þreytu gæti á markaði varðandi stöðu WOW air

Óvissan um WOW air hefur nú varað í töluvert langan tíma, eða nánast frá því í ágúst. Svartasta sviðsmyndin varðandi framtíð félagsins er að það fari í þrot en Sveinn segist halda að enginn óski þess. Ákveðinnar þreytu gæti þó á markaði vegna stöðu félagsins.

„Eins og ég skynja markaðinn núna, eins og þú segir þetta er búið að vera svo lengi og menn eru að teikna upp alls konar sviðsmyndir og kjaftasögur um þetta og hitt. Ég held að það sé komin þreyta hvað þetta varðar, menn vilja fá niðurstöðu og það liggur við hvort sem að félagið fari í þrot eða hvort það sé búið að ná samningum,“ segir Sveinn.

Stjórnvöld hafa verið nokkuð afgerandi í þeirra afstöðu að ekki komi til greina að bjarga WOW air frá þroti.fréttablaðið/ernir

Dæmi um að ríki stígi inn í til að ferja farþega þegar flugfélög fara í þrot

Ríkisstjórnin hefur sagt það alveg skýrt að hún muni ekki bjarga WOW air fari allt á versta veg. Sveinn bendir þó á að þótt ríkið bjargi ekki flugfélaginu frá gjaldþroti þá séu fordæmi fyrir því annars staðar frá að ríki stígi tímabundið inn í rekstur flugfélaga sem farið hafa á hausinn til þess að tryggja að fólk komist á áfangastað.

„Ef að tug þúsundir ferðamanna eru fastir hér á Íslandi þá  er það rosaleg áhætta fyrir orðsporið. Þess vegna eru dæmi um það að ríkið stígi inn í, taki stjórn á þrotabúinu og leysi félagið niður. Í öllum þessum tilvikum hafa félögin ekki starfað lengur þannig að það er ekki verið að bjarga fyrirtækinu heldur viðskiptavinum.“

Sveinn tekur það fram að hann sé ekki að segja ríkinu hvað það ætti að gera kæmi svona staða upp heldur séu einfaldlega mörg fordæmi erlendis frá um svona björgunaraðgerðir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×