Sport

Róbert og Bergrún íþróttafólk ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bergrún með verðlaunin. Róbert gat ekki verið viðstaddur afhendinguna í dag
Bergrún með verðlaunin. Róbert gat ekki verið viðstaddur afhendinguna í dag vísir/vilhelm
Róbert Ísak Jónsson og Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir eru íþróttafólk ársins úr röðum fatlaðra. Bæði hlutu viðurkenninguna í fyrsta sinn.

Íþróttasamband fatlaðra velur ár hvert íþróttakarl og konu ársins og í ár urðu þau Róbert Ísak og Bergrún Ósk fyrir valinu og voru heiðruð á árlegu hófi á Hótel Sögu í dag.

Róbert Ísak átti magnað ár þar sem hann vann alls til 25 verðlauna á erlendri grundu. Hann vann tvö silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í sundi sem fór fram í Dublin í sumar og setti 18 Íslandsmet á árinu.

Hann var staddur í fríi með fjölskyldu sinni á Spáni og gat ekki tekið við verðlaununum en amma hans tók við þeim fyrir hans hönd.

Bergrún Ósk er frjálsíþróttakona og keppir fyrir ÍR. Hún sprakk út í sumar á EM í Berlín þar sem hún vann til þriggja verðlauna. Bergrún er aðeins önnur frjálsíþróttakonan í sögunni sem fær titilinn íþróttakona ársins.

„Þetta var mjög skemmtilegt ár og ég var að bæta mig mjög mikið,“ sagði Bergrún.

Hún stefnir á að keppa á heimsmeistaramóti á næsta ári. „Ég ætla að bæta mig ennþá meira og ná góðum árangri á HM.“

Bergrún vann til verðlauna bæði í spretthlaupi og langstökki. Hvor greinin finnst henni skemmtilegri? „Langstökk. Mér finnst svo skemmtilegt að hoppa í sandinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×