Lífið

Bragi Valdimar stórslasaðist í Rússlandi og fékk spjót í gegnum lærið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bragi Valdimar lenti í miklum hremmingum í Rússlandi fyrir 12 árum.
Bragi Valdimar lenti í miklum hremmingum í Rússlandi fyrir 12 árum.
Tónlistarmaðurinn og textasmiðurinn Bragi Valdimar Skúlason sagði skemmtilega ferðasögu í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Ferðin endaði á sjúkrahúsi sem minnti meira á sláturhús en spítala að sögn Braga.

Sagan kemur fram í heimildarmynd í Sjónvarpi Símans um ferð Baggalútsmanna til Rússlands.

„Þetta var nú fyrir tólf árum síðan þegar við vorum aðeins yngri og vitlausari. Hljómsveitin Hjálmar hafði farið þangað árinu áður. Við vorum drifnir þarna yfir í mikla svaðilför til St. Pétursborgar og vorum að spila þarna á mjög furðulegum stöðum. Með kúrekahattana að syngja íslenska tónlist. Þetta var með því súrealískara sem maður hefur gert.“

Bragi segir að Baggalútsmenn hafi þýtt lagið Pabbi þarf að vinna yfir á rússnesku sérstaklega fyrir tónleikaferðalagið.

Versta hugmyndin

„Eitt kvöldið vorum við læstir út af hótelinu sem við vorum á og ég ákvað að prýla yfir grindverk sem er sennilega versta hugmynd sem ég hef fengið,“ segir Bragi. Spjót hafi staðið upp úr grindverkinu og því mjög hættulegt.

„Eitt af þeim fór sem sagt í gegnum lærið á mér og það var mjög lítið gaman. Sem betur fer fór þetta ekki í gegnum slagæð eða vöðva. Bara í gegnum selspikið á ísbirninum frá Hnífsdal. Mér var dröslað inn á spítala sem minnti frekar á sláturhús.“

Hér að neðan má hlusta á frásögn Braga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×