Innlent

Gissur verður ráðuneytastjóri í nýju félagsmálaráðuneyti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gissur Pétursson hættir sem forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson hættir sem forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Vilhelm
Gissur Pétursson, núverandi forstjóri Vinnumálastofnunar, tekur við embætti ráðuneytisstjóra nýstofnaðs félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Gissur hefur verið forstjóri Vinnumálastofnunar frá því að stofnunin var sett á fót árið 1997. Áður veitti hann um skeið forstöðu skrifstofu vinnumála í félagsmálaráðuneytinu og árin 1986 – 1996 starfaði hann sem sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu. Gissur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í stjórnmálafræði.

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra segist í tilkynningu hlakka til að vinna með Gissuri við uppbyggingu á nýju ráðuneyti félagsmála. Þar sé fyrir sterkur hópur starfsfólks með mikla þekkingu á verkefnum ráðuneytisins.

„Nú bætast við ný verkefni með aukinni ábyrgð á húsnæðismálum samhliða því að Mannvirkjastofnun færist undir ábyrgðarsvið míns nýja ráðherraembættis. Eins og fram hefur komið breytist embættisheiti mitt í félags- og barnamálaráðherra þar sem ég mun leggja mikinn þunga í verkefni í þágu barna, bæði innan ráðuneytisins og í samvinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir. Meðal verkefna Gissurar sem ráðuneytisstjóra verður að greina helstu sóknarfæri og huga að því hvernig skipulagi nýs ráðuneytis verði best hagað í þágu verkefnanna sem undir það heyra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×