Fótbolti

Sara og Gylfi knattspyrnufólk ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór og Sara Björk eru stjörnuleikmenn íslensku landsliðanna.
Gylfi Þór og Sara Björk eru stjörnuleikmenn íslensku landsliðanna. Vísir/Eyþór/Vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson og Sara Björk Gunnarsdóttir voru útnefnd knattspyrnufólk ársins af KSÍ.

Gylfi er einn af lykilmönnum Everton og hefur átt frábæra byrjun á yfirstandandi tímabili. Hann hefur skorað sjö mörk og gefið tvær stoðsendingar í 17 leikjum á tímabilinu til þessa.

Hann var að vanda í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu og bar fyrirliðabandið í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar í Þjóðadeildinni í haust. Gylfi spilaði alla leiki Íslands á HM og skoraði mark Íslands gegn Króatíu.

Sara Björk er einn besti leikmaður Wolfsburg, eins besta félagsliðs Evrópu. Hún átti stóran þátt í að koma liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en meiddist í þeim leik sem svo tapaðist í framlengingu.

Wolfsburg vann tvöfalt heimafyrir í vor, annað árið í röð. Wolfsburg hefur enn ekki tapað leik í þýsku deildinni á yfirstandandi tímabili, Sara hefur tekið þátt í átta þeirra og skorað eit mark.

Sara er fyrirliði íslenska landsliðsins og lék átta landsleiki á árinu, en íslenska liðið var hársbreidd frá því að tryggja sig í umspil um sæti á HM.

Í kjörinu, sem fjölmargir innan knattspyrnuhreyfingarinnar koma að, var Alfreð Finnbogason í öðru sæti og Jóhann Berg Guðmundsson því þriðja. Kvennamegin var Sif Atladóttir önnur og Glódís Perla Viggósdóttir þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×