City aftur á toppinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sterling fagnar marki sínu
Sterling fagnar marki sínu Vísir/Getty
Manchester City endurheimti toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar af Liverpool með nokkuð öruggum sigri á Everton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Everton byrjaði leikinn betur og átti fyrsta alvöru færið þegar Richarlison skallaði boltann rétt framhjá markinu úr dauðafæri strax á 15. mínútu.

Það voru hins vegar heimamenn í Manchester City sem áttu fyrsta markið þegar Gabriel Jesus skoraði á 22. mínútu eftir hrikalega sendingu Yerry Mina út úr vörninni, beint á Ilkay Gundogan.

Eftir markið tók City leikinn yfir en náði þó ekki að koma öðru marki á gestina í fyrri hálfleiknum, staðan 1-0 í hálfleik.

Strax í upphafi seinni hálfleiks bætti Jesus við sínu öðru marki, Leroy Sane átti sendingu inn á teiginn sem Jesus skallaði fast í markið. Sendingin og skallinn mjög góð en mögulega hægt að setja spurningamerki við Jordan Pickford í marki Everton, skallinn var nokkuð beint á hann þó fastur væri.

Það leit allt út fyrir að City ætlaði að sigla frekar þægilegum sigri heim en Dominic Calvert-Lewin minnkaði muninn fyrir Everton á 65. mínútu. Markið kom úr fyrsta skoti Everton á markrammann og aðeins þeirra þriðja skoti í leiknum.

Jesus kemur City yfirvísir/getty
Strax eftir að markið kom frá Everton setti Pep Guardiola Raheem Sterling inn á. Sterling hafði byrjað á bekknum þrátt fyrir að hafa verið sjóðheitur að undanförnu.

Tæpum þremur mínútum eftir að Sterling kom inn á var hann búinn að koma City aftur í tveggja marka forystu með sinni fyrstu snertingu í leiknum.

Sending inn á teigin sem Mina nær ekki að hoppa upp í, Sterling var í hlaupinu inn á teiginn og enginn elti hann almennilega, auðveldur skalli og auðvelt mark.

Gestirnir voru aðeins líflegri undir lokinn og var Calvert-Lewin nálægt því að bæta við sínu öðru marki en Ederson varði glæsilega frá honum.

Niðurstaðan varð 3-1 sigur City sem fer á toppinn aftur með tveimur stigum meira en Liverpool sem spilar við Manchester United á Anfield á morgun.

Kevin de Bruyne kom inn í lið City í síðari hálfleik en þetta var fyrsti leikur Belgans fyrir City síðan 1. nóvember þegar hann spilaði í fjórðu umferð enska deildarbikarsins. De Bruyne hefur ekki spilað leik í deildinni fyrir City síðan í lok október en tímabilið hefur einkennst af meiðslum til þessa hjá miðjumanninum knáa.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton en var tekinn út af í seinni hálfleik. Gylfi hefur oft látið meira fyrir sér fara í leikjum Everton, enda gestirnir lítið í sókn í leiknum. 

Viðtal við Pep Guardiola


Viðtal við Marco Silva


Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira