Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 27-28 | Naumur sigur meistaranna

Benedikt Grétarsson í TM-höllinni í Garðabæ skrifar
Theódór átti góðan leik í dag
Theódór átti góðan leik í dag vísir/bára
ÍBV vann Stjörnuna 27-28 í 13. umferð Olísdeildar karla í handbolta þegar liðin mættust í TM-höllinni í Garðabæ.  Þetta var þriðji sigurleikur ÍBV í röð í deildinni en annað tap Stjörnunnar í röð.

 

Egill Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Sveinbjörn Pétursson varði 11 skot. Theodór Sigurbjörnsson skoraði 11 mörk fyrir ÍBV og Björn Viðar Björnsson varði 12 skot.

 

Fyrri hálfleikur einkenndist af klaufamistökum á báða bóga. Menn virtust eitthvað taugatrekktir eða illa stemmdir og hentu boltanum hverja sóknina á fætur annarri beint út af vellinum. Dagur Arnarsson og Árni Þór Sigtryggsson vilja öðrum fremur gleyma þessum fyrri hálfleik en þeim félögum voru afar mislagðar hendur í sókninni.

 

Theodór Sigurbjörnsson var maður hálfleiksins en þessi magnaði hornamaður skoraði alls sjö mörk á fyrstu 30 mínútum leiksins.

 

Varnarleikur og markvarsla beggja liða var hreint ágæt á löngum köflum og það voru Eyjamenn sem héldu til hálfleiks með naumt forskot, 12-13..

 

Gestirnir frá Eyjum mættu sterkari út í seinni hálfleik og náðu fljótlega þriggja marka forystu. Þessari forystu héldu Eyjamenn langt inn í hálfleikinn og komust mest fjórum mörkum yfir í stöðunni 19-23.

 

Stjörnumenn reyndu að brydda upp á aukamanni í sókninni og það gaf raun. Stjarnan jafnaði metin í 27-27 þegar um 50 sekúndur voru eftir og allt á suðupunkti.

 

Hinn frábæri Theodór Sigurbjörnsson skoraði hins vegar sigurmark ÍBV þegar um 30 sekúndur voru eftir og Björn Viðar Björnsson gulltryggði svo sigurinn með því að verja skot frá Árna Þór Sigtryggssyni undir lokin.

 

Af hverju vann ÍBV leikinn?

 

Varnarleikur ÍBV var góður lengstum í leiknum og BJörn Viðar traustur í markinu. Eyjamenn höfðu fleiri leikmenn sem þorðu að taka af skarið á ögurstundu og stíga upp fyrir liðið. Þrátt fyrir fjarveru Sigurbergs Sveinssonar, komu mörk úr öllum áttum og liðsheildin var miklu sterkari en hjá Stjörnunni.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Áðurnefndur Theodór var flottur hjá ÍBV að venju. Fannar Þór Friðgeirsson átti líka skínandi leik á báðum endum vallarsins og Magnús Stefánsson var yfirkokkur í hinni frægu ÍBV-vörn.

 

Garðar Benedikt Sigurjónsson var besti maður Stjörnunnar og nýtti færin sín frábærlega. Sveinbjörn varði ágætlega í markinu.

 

Hvað gekk illa?

 

Það gekk afar illa að ná einhverjum takti sóknarlega fyrir heimamenn. Menn hentu boltanum frá sér klaufalega og alltof margar sóknir liðsins enduðu með erfiðu skoti frá Agli eða Aroni Degi. Þeir kappar skutu samtals 32 sinnum og geri aðrir betur.

 

Hvað gerist næst?

 

Gleðileg jól kæru landsmenn!

 

Rúnar: Mér líkar ekki holningin á liðinu

 

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar var brúnaþungur eftir tapið gegn ÍBV.

 

„Við náttúrulega vitum það fyrir leikinn að Árni (Sigtryggssson, innsk.blm) getur ekki skotið á markið og það eru í raun bara tveir leikmenn sem geta skotið fyrir utan hjá okkur. Ef þeir bjóða ekki upp á betri leik en í dag, þá fer þetta bara svona. Það er ekkert flóknara en það. Mér fannst þetta bara lélegt hjá þeim,“ sagði Rúnar og vísaði til Arons Dags Pálssonar og Egils Magnússonar sem skutu illa í leiknum.

 

Hvað skildi liðin að?

 

„Þeir unnu þennan leik vegna þess að í 5-1 vörninni okkar, þá eru þessir þrír sem standa fyrir aftan að tapa alltof mörgum návígum. Leikmenn ÍBV unnu öll návígi og Fannar Friðgeirsson labbaði framhjá þeim að vild. Það gerði útslagið í seinni hálfleik þar sem hinir útispilararnir hjá þeim voru frekar kaldir. Fannar kláraði þetta fyrir þá en það var bara allt opið hjá okkur,“ sagði gamli varnarjaxlinn ósáttur.

 

En er Stjörnuliðið á svipuðum stað og Rúnar hefði getað gert sér vonir um fyrir mót?

 

„Nei, við erum bara búnir að tapa of mörgum leikjum í restina. Það spilar ýmislegt inn í það en ég er að sjá holningu á liðinu sem mér líkar ekki við. Þegar reynir eitthvað á, þá stinga menn hausnum í sandinn. Þannig var það í kvöld og í stað þess að bíta á jaxlinn og reyna að gera sitt besta, þá eru alltof margir leikmenn sem eru heilir en eru ekki að skila sínu á vellinum,“ sagði óvenju hvassyrtur Rúnar Sigtryggsson.

 

Fannar: Vorum ömurlegir í byrjun móts

 

„Þetta var bara flottur leikur held ég. Við þurftum að hafa fyrir þessu en kannski gerðum við okkur verkefnið erfiðara en við þurftum með því að klúðra svolítið mikið af færum. En ferðin með Herjólfi verður klárlega skemmtilegri en þegar við siglum heim eftir tap,“ sagði Fannar Friðgeirsson eftir nauman sigur ÍBV gegn Stjörnunni, 27-28.

 

Sigurbergur Sveinsson hefur leikið stórt hlutverk með ÍBV í vetur en hann spilaði ekki í dag.

 

„Við lendum í því að Beggi meiðist eftir 30 sek og þá breytast kannski aðeins áherslurnar hjá okkur og við förum í önnur kerfi og stillum öðruvísi upp. Það hefur bara gengið vel undanfarið og við erum að skapa okkur fullt af færum og hefðum átt að fara yfir 30 mörk í dag,“ sagði Fannar

 

ÍBV byrjaði þetta mót illa en nú hafa meistararnir unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum. Fannar reynir ekkert að fela þá staðreynd að liðið var ekki að spila vel framan af móti.

 

Við vorum í fullri hreinskilni ömurlegir í byrjun móts og áttum marga erfiða og slaka leiki. Við höfum bara verið að vinna vel í okkar málum og höfum æft mjög vel. Hópurinn er að þéttast og þetta er að verða miklu meira lið. Ef þessi leikur hefði verið í september, hefðum við hugsanlega brotnað og klúðrað þessum leik á ævintýralegan hátt. Nú lokum við þessu og það sýnir að við erum bara að styrkjast.“

 

Athygli vakti að Eyjamenn fengu öflugan stuðning úr stúkunni og nánast eingöngu heyrðist í þeirra stuðningsmönnum.

 

„Við vorum á heimavelli í dag,“ sagði Fannar kátur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira