Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KA 33-28 | Atli Már tíu marka maður

Anton Ingi Leifsson í Schenker-höllinni að Ásvöllum skrifar
Atli Már skoraði tíu mörk í dag
Atli Már skoraði tíu mörk í dag vísir/ernir
Haukar verða að minnsta kosti í öðru sæti Olís-deildarinnar er nýtt ár gengur í garð eftir fimm marka sigur á KA á heimavelli í dag, 33-28.

Haukarnir leiddu með tveimur mörkum í hálfeik, 18-16, en þeir sýndu betri hliðar í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur. Þeir verða því að minnsta kosti í öðru sæti um jólin en gætu verið á toppnum tapi Valur gegn Gróttu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var í raun jafn allan tímann. Þegar Haukarnir voru að slíta sig frá gestunum þá komu þeir sér aftur inn í leikinn með hröðum upphlaupum eða góðum uppstilltum sóknum.

Á tímapunkti voru Haukarnir í smá vandræðum sóknarlega en Atli Már Báruson var afar seigur í fyrri hálfleik. Hann var kominn með fimm mörk í fyrri hálfleik.

Markverðir beggja liða voru í vandræðum í raun allan fyrri hálfleikinn þó að það hafi aðeins skánað þegar leið á leikinn. Þegar liðin gengu til búningsherbergja munaði svo tveimur mörkum, 18-16.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en eftir það gáfu heimamenn í. Þeir neyddu gestina í þvinguð skot og voru fljótir að refsa, annað hvort með seinni bylgju eða einfaldlega beinum hraðupphlaupum.

Þeir breyttu stöðunni úr 19-19 í 23-19 og eftir það var ekki aftur snúið. Gestirnir náðu aldrei að minnka muninn eftir það og Haukarnir unnu að lokum góðan sigur, 33-28. Mikilvægur sigur fyrir jólafríið, sér í lagi eftir bikartapið gegn Aftureldingu í vikunni.

Afhverju unnu Haukar?

Þeir skelltu einfaldlega í lás um miðjan síðari hálfleikinnog náðu þar upp forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Grétar tók nokkra bolta í markinu á meðan Jovan náði sér alls ekki á strik. Þar lá hundurinn grafinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Atli Már Báruson var öflugur. Er sóknarleikur Hauka hikstaði aðeins í fyrri hálfleik var það Atli sem steig upp og kom með góð mörk. Einnig átti Grétar Ari fínan leik í síðari hálfeik í markinu.

Færeyingarnir Áki Egilnes og Allan Norðberg voru bestir í liði KA en færeyska tvíeykið skoraði bróðurpartinn af mörkum KA. Í hálfleik voru þeir til að mynda búnir að skora helming af mörkum KA en Áki var skör framar og endaði með átta mörk.

Hvað gekk illa?

Markvarsla beggja liða í fyrri hálfleik var döpur. Jovan Kukobat og Andri Scheving byrjuðu í mörkunum og voru í raun langt frá því að ná sér á strik. Varnarleikur beggja liða hefur einnig verið betri og þar hugsa ég að þjálfararnir séu mjög svo sammála mér.

Hvað gerist næst?

Flestir í liðunum eru að fara í langa pásu, frá Olís-deildinni að minnsta kosti, því keppni þar hefst ekki fyrr en í byrjun febrúar vegna HM sem haldið er í janúar í Þýskalandi og Danmörku.

Þó eiga Daníel Þór Ingason, Heimir Óli Heimisson og Gunnar Magnússon eitthvað fyrir höndum. Daníel og Heimir Óli eru eru í æfingarhóp landsliðsins sem hefur æfingar milli jóla og ný árs en Gunnar er aðstoðarþjálfari landsliðsins.

Atli Már: Hefðum ekki fengið neinn fótbolta í meira en mánuð

„Við vorum lélegir varnarlega í fyrri hálfleik en góðir sóknarlega. Við löguðum það í seinni og þetta gekk hjá okkur en ekki þeim,“ sagði Atli Már Báruson sem fór á kostum í liði Hauka í kvöld.

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, virtist ekki par sáttur með varnarleik sinna manna er hann gekk til búningsherbergja í fyrri hálfleik en Atli sló á létta strengi er hann var spurður út í hvað Gunnar hafði sagt um varnarleikinn í fyrri hálfleik.

„Hann fór yfir þau atriði sem þurfti að laga. Ég spila svo litla vörn að ég man þetta ekki allt. Hann fór eitthvað yfir þetta og þetta gekk betur,“ en Atli segir sigurinn eftir tapið gegn Aftureldingu í bikarnum í vikunni. Þá sér í lagi útaf einu atriði.

„Já, maður er búinn að vera svekktur síðan. Það er gott að fá sigur fyrir jól og gott að fara inn í fríið með sigur því við hefðum ekki fengið neinn fótbolta í meira en mánuð hefðum við tapað. Þetta var mikilvægt,“ en hver er bestur í fótbolta í Haukaliðinu?

„Tjörvi þegar hann er ekki meiddur en annars ég,“ sagði læðan að lokum.

Stefán: Erum að sýna og sanna að við eigum heima í efstu deild

„Þeir komast fram úr okkur um miðjan síðari hálfleikinn. Það var jafnt 19-19 en svo skora þeir fjögur mörk í röð. Við náum aldrei að brúa það bil,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari KA, í leikslok.

„Það er viðbúið að þú náir ekki að spila allar 60 mínúturnar góðar gegn liði eins og Haukum. Ég er ánægður með margt sem við gerðum í sókninni og við náðum taktinum aftur en við vorum of lengi að gera það. Það þarf einn lítinn kafla og þá missiru leikinn frá þér.“

„Það gerði þetta erfiðara en við hefðum einnig getað gert í vörninni. Í tíu mínútur náum við góðum kafla í síðari hálfleik og Jovan fór að taka bolta. Ég var að vona að hann væri að smella í gang en þá lak inn.“

„Gegn liði eins og Haukum þarftu að leika afbragðsbolta. Þú þarft nánast að spila fullkominn leik til þess að eiga séns á að vinna þá en það vantaði aðeins upp á. Við mættum hingað til að vinna leikinn og höfðum trú á honum svo maður er svekktur.“

Nú er KA á lei í jólafrí þangað til í byrjun febrúar en nýliðarnir eru með tíu stig fyrir áramót. Stefán er temmilega sáttur með þá uppskeru.

„Að hluta til sáttur. Það er margt sem við höfum verið að gera vel en það eru tveir til þrír leikir sem að við erum mjög ósáttir með. Heilt yfir er ég ánægður. Strákarnir eru að leggja mikið í þetta og þeir eru að sýna það og sanna að þeir eigi heima í efstu deild.“

„Við megum hins vegar ekki gleyma okkur og sofna á verðinum. Við erum bara fjórum stigum frá falli og það er mikið eftir en við munum halda áfram að berjast og nota pásuna vel. Við viljum halda áfram í Olís-deildinni,“ en eru útihlaup í snjónum framundan?

„Það verður tekið á því. Nú er tími til þess að byggja sig aftur upp og koma sér í form. Við ætlum að vera klárir í seinni hlutanum,“ sagði Stefán að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira