Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Valur 9-21 | Stórsigur Valsmanna sem verða á toppnum yfir hátíðarnar

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/vilhelm
Valsmenn sigruðu Gróttu 21-9 á Seltjarnarnesinu í kvöld í leik sem einkenndist af geggjaðri vörn. Úrslitin þýða að Valsmenn verma toppsæti deildarinnar í fríinu á meðan Grótta er hinu megin í töflunni.

 

Valsmenn spiluðu gjörsamlega geggjaðan varnarleik í kvöld og Grótta átti eiginlega aldrei séns. Grótta komust yfir 2-1 í upphafi leiks eftir tvö mörk frá Hannesi Grimm á línunni. Grótta skoraði síðan ekki aftur fyrr en þegar tæpar 25 mínútur voru búnar af leiknum en þá voru Valsmenn komnir með tíu mörk. Grótta spilaði ágætis varnarleik í kvöld en með svona sókn áttu aldrei séns í lið eins og Val.

 

Af hverju vann Valur?

 

Frábær varnarleikur og markmenn í stuði. Það sást vel í kvöld að annað liðið er í toppsætinu en hitt í botnsætinu.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Byrja á að hrósa eina leikmanni Gróttu sem getur verið ánægður með frammistöðu sína í leiknum en Hreiðar Levý var frábær í kvöld. 50% markvarsla er alltaf mjög vel gert, en þegar tvö víti og svona átta hraðaupphlaup eru hluti af því ertu vægast sagt búinn að skila þínu dagsverki.

 

Markmenn Vals voru svo sem ekki mikið verri, Einar Baldvin spilaði lítið en var með tæpa 77% markvörslu og Daníel Freyr með 60%. Síðan er erfitt að velja upp úr hvaða Völsurum á að hrósa fyrir varnarleikinn en þeir stigu varla feilspor þar í kvöld.

 

Sóknarlega sýndu Anton Rúnarsson og Róbert Aron Hostert sín gæði í kvöld á meðan aðrir leikmenn Vals voru ekki að spila frábærlega sóknarlega.

 

Hvað gekk illa?

 

Bara allt sóknarlega hjá Gróttu, 9 mörk segja allt sem segja þarf.

 

Hvað gerist næst?

 

Langt landsleikjahlé. Bæði lið munu eflaust æfa vel og taka hálfgert undirbúningstímabil næsta mánuðinn. Síðan er spurning hvort að Grótta reyni ekki að sækja einhverja leikmenn ef þeir ætla að halda sér í deild þeirra bestu.

 

Gulli: Virkilega flott liðsframmistaða

 

„ Ég myndi hrósa karakternum og hvernig við mættum inn í þennan leik. Virkilega flott liðsframmistaða, ” sagði Guðlaugur Arnarsson þjálfari Vals hress eftir leikinn.

 

Hvernig fóruð þið að því að halda liði í einna stafa tölu?

 

„Með því að spila mjög góðan, skipulagðan og agaðan varnarleik. Frá horni til horns voru menn að berjast fyrir því að vinna boltann.”

 

Er hægt að taka eitthvað neikvætt úr þessum leik?

 

„Að skora ekki meira. Skornýtingin okkar, sérstaklega í seinni hálfleik. Við erum að vinna hérna mjög góðan og stóran sigur. Engu að síður fáum við mikið af færum sem við erum ekki að fara nógu vel með og ég vil hafa þá nýtingu betri.” 

 

Núna er að hefjast langt frí. Eru einhver sérstök atriði sem þið munuð einbeita ykkur að?

 

„Við fókusum bara á það sem við höfum verið að gera hingað til. Svona heildarstrúkturinn á liðinu, líkamlegi þátturinn fær að finna dálítið fyrir því núna næstu vikurnar. Byrjum náttúrulega á að fara í frí. Tökum núna gott frí. Síðan þegar við förum aftur að æfa þá fær líkamlegi þáttúrinn að finna fyrir því.”

 

Alexander Örn Júlíusson leikmaður Vals sem var jafnframt valinn besti varnarmaður fyrri hluta olís deildar karla var fjarverandi í kvöld. Ástæðan fyrir því er að Alexander eignaðist barn um helgina og er að fara í próf í vikunni í háskólanum.

 

„Hann fékk fæðingarorlof í dag en hann er bara að klára sín verkefni. Hann varð pabbi á föstudaginn sem er frábært og er að klára sín próf á morgun. Það er frábært að liðið bakki hann svona upp líka með svona frammistöðu þegar það vantar svona sterkan karakter inn.”

 

Einar Jóns: Erum neðstir og taflan lýgur ekki

 

„Vonsvikinn náttúrulega. Þetta var langt frá því að vera nógu gott. Frammistaðan var alls ekki góð. Það eru svona fyrstu tilfinningarnar allavega,” sagði Einar Jónsson þjálfari Gróttu eftir leik.

 

„Ég efast um það en ég veit það ekki,” sagði Einar aðspuður hvort hann hafi áður lent í því að liðinu hans sé haldið í eina stafatölu af mörkum.

 

Langt hlé að hefjast. Eru einhver sérstök atriði sem þið ætlið að vinna í eða eru mögulega einhverjar breytingar á leikmannahópnum á leiðinni?

 

„Við þurfum að vinna í fullt af málum það er ljóst. Svo verðum við bara að skoða leikmannamálin aðeins. Það er eitthvað sem kemur bara í ljós sem fyrst.”

 

Þið ætlið semsagt að styrkja leikmannahópinn núna í glugganum?

 

„Já það er bara verið að skoða svona hluti. Ég er ekki með neitt staðfest en auðvitað þurfum við að skoða eitthvað. Bæði hvort við getum lagað eitthvað og líka hvort við getum styrkt hópinn.”

 

Núna eruð þið neðstir í deildinni á leið inn í fríið, eruð þið ekki örugglega lið sem á heima í þessari deild?

 

„Við náttúrulega ætlum okkur það. Miðað við hvernig erum búnir að spila hingað til og erum neðstir þá er náttúrulega ljóst að taflan lýgur ekki. Við þurfum að hysja upp um okkur buxurnar. Auðvitað ætlum við okkur að halda okkur í deildinni.”

 

Er hægt að taka eitthvað jákvætt úr þessum leik?

 

„Já Hreiðar var frábær. Annars er ekkert til að tala um.”

 

Anton Rúnars :Orri alltaf að fá á sig línu

 

„Það er bara æðislegt, það voru allir hundrað prósent í dag. Þeir sem komu inn af bekknum og markmennirnir voru báðir stórkostlegir. Bæði Danni og Einar með meira en 60% markvörslu. Það voru bara allir hundrað prósent og gaman að sjá svona tölur þegar allir eru á fullu í þessu,” sagði Anton kátur eftir leik um hvernig væri að spila vörn með þessu Valsliði þessa dagana.

 

„Þetta er náttúrulega ótrúlegt en eins og ég segi þá ætluðum við ekkert að vera eitthvað værukærir í þessum leik og við förum í alla leiki til að vinna. Við gerðum það heldur betur í dag. Það er gott að enda á svona leik þar sem við spilum á fullum krafti og halda síðan áfram að bæta okkur.”

 

Hvað er hægt að taka neikvætt úr þessum leik?

 

„Bara línuspilið, hættum að senda á línuna. Ég sendi hérna aftur fyrir bak á Orra og hann fær alltaf á sig línu. Þannig að það er kannski eina neikvæða við þennan leik við þurfum að skoða það aðeins betur kannski.”

 

„Línuspilið. Nei við tökum smá frí núna og við förum síðan í æfingaferð í janúar og vinnum í þeim hlutum sem við þurfum að bæta okkur í. Við eigum eftir að bæta okkur alveg helling,” sagði Anton hress um hvað atriði Valsmenn ætla að leggja áherslu í fríinu sem er að hefjast.

 

Þrír í landsliðshóp núna, mun það ekkert trufla æfingar í fríinu?

 

„Nei, alls ekki. Þetta er verðskuldað tækifæri fyrir þessa stráka. Við erum með hörkulið og þetta er bara fyllilega verðskuldað. Bara gaman að við séum með nokkra leikmenn í þessum hóp.”

 

Þrír Gíslasynir á línunni núna. Hver stígur sjaldnast á línuna?

 

„Ég myndi segja Tjörvi þar sem hinir eru búnir að stíga svo oft á línuna.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira