Southampton stöðvaði Arsenal og fer upp úr fallsæti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Charlie Austin skorar alltaf gegn Arsenal
Charlie Austin skorar alltaf gegn Arsenal Vísir/Getty
Southampton er komið upp úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni eftir fyrsta sigur liðsins síðan 1. september.

Southampton fékk lið Arsenal í heimsókn á St. Mary's völlinn í dag og hafði Arsenal ekki tapað leik í öllum keppnum síðan um miðjan ágúst.

Gestirnir í Arsenal byrjuðu betur og áttu fyrsta færið en það var Danny Ings sem skoraði fyrsta markið með skalla eftir 20 mínútur.

Skallamörk áttu eftir að vera einkennismark leiksins. Armeninn Henrikh Mkhitaryan jafnaði metin fyrir Arsenal á 28. mínútu með glæsilegum skalla en Ings kom Southampton aftur yfir áður en flautað var til hálfleiks, með skallamarki úr miðjum teignum.

Arsenal hefur átt erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik leikjanna sinna og aldrei verið í forystu í leikhléi í deildinni til þessa.

Seinni hálfleikirnir hafa hins vegar verið betri og byrjaði Pierre-Emerick Aubameyang hann af kröftum og komst strax í gott færi á fyrstu mínútunni.

Ralph Hasenhuettl tók við Southampton þegar Mark Hughes var rekinn í byrjun desembervísir/getty
Á 53. mínútu jafnaði Mkhitaryan aftur úr eina marki leiksins sem ekki var skorað með höfðinu. Alexandre Lacazette rændi boltanum af vörn Southampton, kom boltanum á Armenann sem átti skot í varnarmann og þaðan í netið.

Shane Long kom Southampton yfir þegar korter var eftir af leiknum upp úr klafsi í teignum en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Þegar stefndi í jafntefli skoraði varamaðurinn Charlie Austin hins vegar fyrir Southampton og tryggði þeim sigurinn. Frábær sending frá Shane Long á skallann á Austin sem kom boltanum í netið.

Southampton hafði ekki skorað skallamark á tímabilinu en setti þrjú í þessum leik.

Tapið þýðir að Arsenal er fast í fimmta sæti deildarinnar en Southampton fer upp úr fallsæti á kostnað Burnley.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira