Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Þór Þ. 73-106 │Þórsarar völtuðu yfir Hauka

Skúli Arnarson skrifar
Haukar biðu lægri hlut í kvöld.
Haukar biðu lægri hlut í kvöld. vísir/bára
Þór Þorlákshöfn fór létt með sært lið Hauka í Schenker höllinni í kvöld þegar þeir unnu 33 stiga stórsigur, 73-106, í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Þór var fyrir leikinn í níunda sæti með sex stig eftir níu leiki, sæti neðar en Haukar sem sátu fyrir leikinn í áttunda sæti með átta stig.

Það var ljóst fyrir leik að róðurinn yrði þungur fyrir Hauka sem voru án hávaxins leikmanns inn í teig. Marques Oliver spilaði ekki með Haukum í dag og eftir leik sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, að Oliver komi ekki til með að spila meira með Haukum í vetur.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og voru komnir með komnir með átta stiga forskot þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum, 15-7. Haukar náðu að minnka muninn aðeins niður áður en Nick Tomsick leikmaður Þórs skoraði snögg átta stig í röð og munurinn eftir fyrsta leikhluta var 37-23 fyrir Þór.

Annar leikhluti var mjög líkur þeim fyrsta. Þór reyndi eðlilega mikið að koma boltanum inn í teig og voru að fá margar körfur þaðan. Staðan í hálfleik var 59-39 Þór í vil.

Það var ljóst að það þyrfti að koma áhlaup frá Haukum snemma í seinni hálfleik ef að þeir ætluðu sér að fá eitthvað út úr leiknum. Áhlaupið hinsvegar kom aldrei og Þórsarar juku forskotið bara hægt og rólega og á endanum munaði 33 stigum, 106-73.

Þór lyftu sér með sigrinum upp í sjöunda sætið með átta stig en Haukar eru eftir leikinn í níunda sæti, einnig með átta stig.

Af hverju vann Þór Þorlákshöfn?

Þeir voru einfaldlega miklu betri. Þeir sóttu grimmt á veikleika Hauka sem var hæð liðsins inn í teig og uppskáru eftir því. Einnig voru Þórsarar að hitta vel úr skotum sínum utan af velli og voru með 39% þriggja stiga nýtingu.

Hvað gekk illa?

Haukarnir spiluðu ekki vel í dag. Lykilleikmenn Hauka áttu ekki góðan dag. Haukur Óskarsson hitti úr 5 af 23 skotum sínum og Hjálmar Stefánsson, sem hefur verið frábær undanfarið, átti ekki góðan leik með sex stig. Haukar hittu mjög illa fyrir utan þriggja stiga línuna og voru með 14% nýtingu þaðan.

Þessir stóðu upp úr:

Nick Tomsick var besti maður vallarins í kvöld með 21 stig og 15 stoðsendingar. Hann stjórnaði hraða leiksins vel fann félaga sína í góðum stöðum. Halldór Garðar var einnig frábær í dag og skoraði 25 stig. Hann hitti úr öllum sex skotum sínum inn í teig. Það er eiginlega ekki hægt að taka neinn úr Haukaliðinu en liðið í heild sinni var mjög slakt.

Hvað gerist næst?

Haukar mæta Vestra á Ísafirði á sunnudaginn í bikarnum og Þór fá Njarvík í Þorlákshöfnina á mánudaginn.

Ívar: Oliver spilar ekki fleiri leiki með okkur
Ívar messar yfir sínum mönnum.vísir/bara
Þórsarar frá Þorlákshöfn völtuðu yfir sært lið Hauka í kvöld með 106 stigum gegn 73. Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka var ekki ánægður með það hvernig hans menn spiluðu í kvöld. 

„Við áttum ekki góðan leik. Við vissum það að ef við ætluðum að vinna í dag þá þyrftum við topp leik frá okkar mestu skorurum. Þeir hittu bara illa í kvöld. Menn voru að reyna að berjast og djöflast og svo smátt og smátt misstu menn trúna og þá varð þetta svona stór sigur."

Marques Oliver, bandaríski leikmaður Hauka, hefur ekki leikið með þeim í síðustu tveimur leikjum og sagði Ívar að hann væri að glíma við meiðsli.

„Hann er búinn að vera meiddur og var ekki með í kvöld.”

Það er ljóst að Hauka vantar stærð inn í teig. Þeir eiga stóran og stæðilegan leikmann í Kristjáni Leif en hann hefur ekki spilað með liðinu síðan gegn Njarðvík fyrir um einum og hálfum mánuði síðan.

„Kristján fékk heilahristing gegn Njarðvík og það eru ekki teknir neinir sénsar með það. Hann hefur því miður ekki náð nægilega mörgum verkjalausum dögum og því miður eru þetta hæg skref.”

Lykilmenn Hauka náðu sér ekki á strik í kvöld.

„Þetta var fyrsti leikurinn eftir að Hjálmar kom úr meiðslum sem hann á ekki góðan dag, Haukur Óskarsson er að hitta illa og við erum með Kidda í baráttu á móti stórum allan leikinn. Það er alveg ljóst að við þurfum að skoða okkar lið, við þurfum meiri hæð í liðið okkar."

„Það er bara gríðarlega erfitt að vera að spila leik eftir leik án leikmanna inni í teig. Þetta er ekki búin að vera góð vika fyrir okkur í sambandi við meiðsli og annað og við erum ekki búnir að koma í einn leik í vetur með fullt lið.”

Ívari fannst Þór spila skynsamlega og vel í kvöld.

„Þórsararnir voru skynsamir í kvöld. Þeir refsuðu okkur strax í fyrsta leikhluta með því að fara mikið inn í teiginn og gerðu bara mjög vel. Þegar við fórum að reyna að loka á þá inn í teig þá fóru þeir að hitta úr þristunum og þetta varð alltaf erfiðara og erfiðara fyrir okkur.”

Aðspurður hvernig Ívar ætlaði sér að sigra leikinn í dag sagði hann að það hefði verið erfitt að leggja upp leikinn í dag.

„Við vissum að við yrðum í smá vandræðum inn í teignum ef þeir myndu notfæra sér það og við vissum að þeir eru með góðar skyttur. Við vorum í smá erfiðleikum með að leggja þennan leik upp.”

Að lokum fullyrti Ívar að Marques Oliver komi ekki til með að spila fleiri leiki fyrir Hauka.

„Það er ljóst að Marques Oliver spilar ekki fleiri leiki með okkur.”

Baldur: Við ætlum að ná í fleiri sigra
Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Þórsara frá Þorlákshöfn.
Baldur Þór, þjálfari Þórs var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Ég er alveg hrikalega ánægður. Við sýndum orku í þessum leik, allir einbeittir mest allan leikinn og ég er bara mjög ánægður að ná sigri hérna.”

Þórsarar voru 20 stigum yfir í hálfleik en náðu að halda áfram að spila af krafti í seinni hálfleik.

„Það hægðist aðeins á þessu eins og gerist alltaf í þessum leikjum en við kláruðum þetta sterkt.”

Leikplan Þórs breyttist lítilega eftir að í ljós kom að Marques Oliver myndi ekki spila í kvöld.

„Leikurinn var lagður upp eins og að Marques Oliver myndi spila leikinn og það breyttist bara smá eftir að annað kom í ljós. Við bara höldum áfram og allir vilja bæta sig í þessu liði og við ætlum að ná í fleiri sigra,” sagði Baldur að lokum.

Tomsick: Þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur
Þórsarar unnu góðan sigur í kvöld.vísir/daníel
Nikolas Tomsick var frábær í liði í kvöld með 21 stig og 15 stoðsendingar. Hann var mjög ánægður með stórsigurinn í kvöld.

„Þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur, sérstaklega eftir tap í síðasta leik. Það eru mörg lið jöfn í miðri deildinni og við vissum að við þyrftum að koma út af miklum krafti, sérstaklega varnarlega, sem er eitthvað sem okkur hefur vantað.”

Þór Þorlákshöfn hefur núna unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.

„Mér finnst við vera að komast á smá skrið og það væri frábært að ná að komast áfram í bikarnum á mánudaginn og svo er mikilvægur leikur gegn val í næsta leik.”

Tomsick var að vonum ánægður með eigin frammistöðu í dag.

„Þetta var frábært. Við vorum mjög slakir í síðasta leik á móti Keflavík og ég var engin undantekning frá því. Mig langaði að spila vel í þessum leik og koma liðsfélögum mínum í færi auk þess að vera hættulegur sóknarlega. “

Tomsick segir að Þór hafi leitað meira inn í teig eftir að ljóst var að Oliver yrði ekki með Haukum.

„Hann er einn þeirra besti leikmaður, ef ekki sá besti. Við vissum að án hans yrði mjög erfitt fyrir þá að stoppa okkur inn í teig.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira