Enski boltinn

Chelsea hafði áður fengið kvörtun vegna mannsins sem níddist á Sterling

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wing, fyrir miðri mynd, segist iðrast orðræðu sinnar en neitar kynþáttaníði
Wing, fyrir miðri mynd, segist iðrast orðræðu sinnar en neitar kynþáttaníði mynd/the times
Stuðningsmaðurinn sem sakaður er um að hafa beitt Raheem Sterling kynþáttaníði á leik Chelsea og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni hefur áður verið sakaður um kynþáttaníð.

Colin Wing var nefndur sem sökudólgurinn í máli Sterling eftir að hann sást hella sér yfir leikmanninn á sjónvarpsupptökum frá leiknum. Hann hefur verið bannaður frá því að fara á leiki á meðan rannsókn á málinu stendur yfir ásamt þremur öðrum stuðningsmönnum Chelsea.

Wing neitar því að hafa notað kynþátt Sterling í háðsyrðunum sem hann lét rigna yfir leikmanninn, hann segist hafa sagt „Manc“, sem er algeng stytting á Manchester, í stað þess að hafa sagt „black“.

Komið hefur fram í breskum fjölmiðlum að Wing segist hafa misst vinnuna út af atvikinu.

The Times greinir frá því í dag að annar stuðningsmaður Chelsea hafi í samtali við blaðið greint frá því að hann hafi kvartað yfir kynþáttaníði Wing áður.

Stuðningsmaðurinn, sem heitir Josh Smaller, skirfaði Chelsea kvörtunarbréf þar sem hann sagði Wing og hóp annara hafa beitt leikmenn kynþáttaníði úr stúkunni.

Smaller segir sig og 10 ára son sinn hafa setið undir orðræðum Wing og félaga sem voru niðrandi í garð svartra, fólks af spænskum ættum og innihéldu öll blótsyrði sem hugsast geta.

Flest þessara orða beindust að leikmönnum andstæðingsins, sem í þessum leik var Manchester United, en einnig að þáverandi framherja Chelsea Fernando Torres.

Smaller skrifaði Chelsea bréf og lét fylgja með bréf frá 10 ára syni hans sem lýsti því hversu óþægilega honum hafi liðið vegna hegðunar Wing og félaga.

Chelsea þakkaði þeim feðgum fyrir að hafa samband, bað um hjálp við að bera kennsl á þá sem um ræddi, sem Smaller veitti þeim, og hafði svo ekki frekara samband vegna málsins.


Tengdar fréttir

Lögregla rannsakar kynþáttaníð í garð Sterling

Raheem Sterling varð fyrir kynþáttafordómum þegar Manchester City beið lægri hlut fyrir Chelsea á Stamford Bridge í gær. Hann hefur tjáð sig um atvikið og segir fjölmiðla eiga stóran þátt í að kynþáttafordómar séu til staðar í fótboltasamfélaginu á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×