Erlent

Þúsundir Belga mótmæla innflytjendasamþykkt Sameinuðu þjóðanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælendur hafa valdið usla á götum Brussel í dag.
Mótmælendur hafa valdið usla á götum Brussel í dag. Dursun Aydemir/Getty
Um 5500 mótmælendur hafa safnast saman í Brussel, höfuðborg Belgíu, til þess að mótmæla samþykkt Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk og innflytjendur sem undirritaður var í Marokkó í síðustu viku.

Það eru flæmskir hægriflokkar sem standa á bak við mótmælin sem stafa af ótta um að samþykktin gæti leitt til aukins fjölda innflytjenda í Belgíu.

Lögreglan þurfti að beita mótmælendur táragasi og háþrýstivatnsbyssum þar sem töluvert var um átök milli mótmælenda og lögreglu.

Þá efndu hópar vinstrifólks til gagnmótmæla sem drógu að sér um þúsund manns.

Þó nokkur ríki ósátt við samþykktina

Stærsti flokkurinn sem á aðild að ríkisstjórn Belgíu, N-VA flokkurinn, ákvað eftir að forsætisráðherra landsins Charles Michel, skrifaði undir samþykktina að ganga út úr ríkisstjórninni.

Samþykktin var í júlí samþykkt af öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna en aðeins 164 þeirra undirrituðu hana. Meðal þeirra ríkja sem hafa neitað að innleiða samþykktina eru Bandaríkin, Austurríki, Ítalía, Ungverjaland, Slóvakía og Pólland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×