Enski boltinn

Klopp: Ein okkar besta frammistaða

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Klopp fangaði vel í leikslok
Klopp fangaði vel í leikslok vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool var að vonum hæstánægður með sigur sinna manna á erkifjendum sínum í Manchester United. Klopp segir að frammistaða Liverpool í dag hafi verið ein besta frammistaða liðsins undir hans stjórn.



Liverpool eru enn ósigraðir í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en með sigrinum komust þeir á topp deildarinnar, en Liverpool er með eins stigs forskot á Manchester City.



Xherdan Shaqiri tryggði sigur Liverpool í dag, en hann kom inn á af bekknum í stöðunni 1-1 og skoraði svisslendingurinn tvö mörk í leiknum.



Þrátt fyrir að staðan hafi verið 1-1 í hálfleik, segir Klopp að fyrsti hálftími leiksins hafi verið fullkominn af hálfu Liverpool.



„Þetta var frábær byrjun, ein besta frammistaða liðsins síðan ég kom til Liverpool ef ég á að vera hreinskilinn. Fyrsti hálftíminn var stórkostlegur, við spiluðum fullkomnlega,“ sagði Klopp.



„Við vildum taka áhættur, vera hugrakkir og koma boltanum aftur fyrir öftustu varnarlínu. Ef þú hefðir getað teiknað upp mark, þá var fyrsta markið þannig. Frábær frammistaða, við áttum þetta fyllilega skilið. Stórkostlegt lið.“



„Ég held að Manchester United hafi ekki viljað spilað varnarsinnað, en við leyfðum þeim ekkert annað.“



Liverpool er í leit af sínum fyrsta deildartitli síðan 1990, og þrátt fyrir að Liverpool hafi aðeins eins stigs forskot á Manchester City er hann ekki að einblína á bláa liðið í Manchester-borg, heldur aðeins á sitt eigið lið.



„Það breytist ekkert. Við getum ekki breytt planinu í hverri viku. Í dag mættum við Manchester United, við ræddum ekki í eina sekúndu um stöðuna í deildinni, eða Manchester City í gær. Hugsuðum ekkert um það.“



„Við vildum vinna þennan leik í dag, það var nóg. Við erum augljóslega með gott fótbolta lið. Við vissum það í upphafi tímabils. Við þurfum hins vegar að sanna það að við erum góðir, og við gerðum það í dag. Nú þurfum við að halda áfram að sanna það.“

Klippa: Jurgen Klopp Post Match Interview



Fleiri fréttir

Sjá meira


×