Lífið

Búist við stórtapi á stórmynd Heru

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hera leikur eitt af aðalhlutverkunum í Peter Jackson-myndinni Mortal Engines.
Hera leikur eitt af aðalhlutverkunum í Peter Jackson-myndinni Mortal Engines. IMDB
Fastlega er gert ráð fyrir því að kvikmyndaverið og aðrir fjárfestar á bak við stórmyndina Mortal Engines, þar sem Hera Hilmars leikur eitt aðalhlutverkið, muni stórtapa á framleiðslu myndarinnar. Aðsókn á myndina á flestum mörkuðum hefur verið dræm.

Variety greinir frá og hefur eftir sérfræðingi í kvikmyndaiðnaðinum. Þó nokkrar væntingar voru gerðar til myndarinnar enda um að ræða verkefni á forræði Peter Jackson, leikstjóra Lord of the Rings kvikmyndanna. Mikið var lagt í gerð myndarinnar og kostaði hún yfir 100 milljónir dollara í framleiðslu, um tólf milljarða króna.

Myndin er byggð á bókum Philip Reeve. Sögusviðið er framtíðin þar sem jörðin hefur verið lögð í eyði eftir alheimsstyrjöld. Örfáar borgir eru þó eftir og ferðast þær um og berjast við aðrar borgir um þær auðlindir sem eftir eru. Erfiðlega hefur reynst að markaðssetja myndina en í frétt Variety segir að fáir í Bandaríkjunum kannist við bækurnar auk þess sem að svo virðist sem að ekki hafi verið auðveld að selja væntanlegum kvikmyndahúsagestum hugmyndina um stríð á milli hreyfanlegra borga.

Talsverðar vonir voru bundnar við myndina enda Peter Jackson þekktur fyrir lítið annað en að framleiða eða leikstýra stórmyndum.Vísir/Getty/Stefán

Dræm aðsókn um helgina í Bandaríkjunum

Til marks um þetta halaði myndin aðeins inn 7,5 milljónir dollara, um milljarð króna, í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum en myndin var frumsýnd ytra um helgina. Alls hefur myndin halað inn 42 milljónir dollara á heimsvísu, um fimm milljarða króna. Vonir eru þó bundnar við að kínverskir kvikmyndahúsagestir muni koma til bjargar enda á eftir að frumsýna kvikmyndina þar í landi.

Í frétt Variety segir þó að miðað við viðtökurnar annars staðar sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að myndin muni skila hagnaði. Þvert á móti gera sérfræðingar ráð fyrir að myndin muni skila 100 milljón dollara, um tólf milljarða króna, tapi þegar allur kostnaður er talinn með.

„Það má með sanni segja að þetta sé jólaharmleikur og algjör kolamoli fyrir Universal,“ segir Jeff Bock, sérfræðingur í kvikmyndaiðnaðunum, í viðtal við Variety. Universal er kvikmyndaverið á bak við myndina en stærsta skellinn fær Media Rights Capital, fyrirtækið sem fjármagnaði helming myndarinnar.

Jackson var sagður hafa vonað að myndin yrði fyrsta myndin af mörgum í þessum sagnabálki en miðað við dræmar aðsóknartölur má fastlega gera ráð fyrir að fleiri myndir verði ekki gerðar.

Hlutverk Heru í myndinni er það stærsta sem hún hefur leikið á ferlinum hingað til. Þrátt fyrir að myndin hafi fengið dræmar viðtökur í kvikmyndahúsum hefur hún fengið ágæta dóma fyrir leik sinn í myndinni. Á vef Screen Daily segir meðal annars í gagnrýni á myndinni að Heru takist að gera Hester Shaw að sannfærandi hetju sem nái vel saman við mótleikara hennar, írska leikarann Robert Sheehan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×