Enski boltinn

Fóru sömu leið með Martial og þeir notuðu hjá David de Gea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Martial
Anthony Martial Vísir/Getty
Samningur Anthony Martial og Manchester United nær nú til ársins 2020 þrátt fyrir að leikmaðurinn og félagið hafi ekki komið sér saman um nýjan samning.

Franski framherjinn var með samning til ársins 2019 en United nýtti sér klásúlu í samingnum sem gaf félaginu kost að framlengja gamla saminginn um eitt ár.





Manchester United nýtti sér samskonar klásúlu þegar félagið framlengdi saminginn við spænska markvörðinn David de Gea í síðasta mánuði.

Fulltrúar Anthony Martial eru áfram í samningarviðræðum við Manchester United um nýjan samning en á meðan þarf United ekki að óttast það að Martial fari frítt í sumar.

Umboðsmaður Anthony Martial er samt mjög svartsýnn um að leikmaðurinn sinn geri lengri samning við Manchester United.

„Þeir hafa komið með samningstilboð sem standast ekki okkar væntingar og eru í raun mjög langt frá okkar óskum. Við erum langt frá því að ná samkomulagi,“ sagði Philippe Lamboley, umboðsmaður Anthony Martial, í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina RMC.

Manchester United keypti Anthony Martial frá Mónakó fyrir 36 milljónir punda árið 2015 og gerði hann þá að dýrasti táningi fótboltaheimsins.

Anthony Martial er nú 23 ára gamall en hann hefur skorað 7 mörk í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Næsti leikur verður hans hundraðasti með United í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×