Erlent

Myrtar á bak­poka­ferða­lagi um Marokkó

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konurnar höfðu búið sér næturstað í hlíð fjallsins Toubkal í grennd við bæinn Imlil.
Konurnar höfðu búið sér næturstað í hlíð fjallsins Toubkal í grennd við bæinn Imlil. Getty
Yfirvöld í Marokkó rannsaka nú morð á tveimur konum, annarri norskri og hinni danskri, sem fundust látnar í hlíð fjallsins Toubkal í Atlasfjallgarðinum á mánudagsmorgun. Greint er frá því í norskum fjölmiðlum að þær hafi verið myrtar á hrottafenginn hátt.

Í frétt norska dagblaðsins VG segir að konurnar hafi fundist í grennd við bæinn Imlil en svæðið er vinsæll ferðamannastaður um hundrað kílómetra sunnan af Marrakech. Konurnar, sem báðar voru á þrítugsaldri, voru á bakpokaferðalagi um Marokkó þegar þær voru myrtar. Samkvæmt frétt Norska ríkisútvarpsins NRK var norska konan 28 ára en sú danska 24 ára. Þær stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi.

Vegfarandi gekk fram á lík þeirra á mánudagsmorgun en þær höfðu búið sér næturstað í fjallinu. VG hefur bæði eftir marokkóskum fjölmiðlum og eigin heimildarmönnum að konurnar hafi verið myrtar á hrottafenginn hátt. Talið er að hníf eða annars konar eggvopni hafi verið beitt við morðið. Norski miðillinn TV2 greinir jafnframt frá því að áverkar hafi verið á hálsi kvennanna.

Mikill viðbúnaður lögreglu er nú á vettvangi og hefur hann verið girtur af. Þá hefur gönguferðum á svæðinu verið aflýst og rannsóknarteymi frá höfuðborginni Rabat sent á vettvang.

Í frétt VG er haft eftir íbúa á svæðinu að samfélagið sé í áfalli, enda hafi svona nokkuð aldrei hent áður á þessum slóðum. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×