Handbolti

Seinni bylgjan: Sögur úr handboltaheiminum í barnabókum Bjarna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson segir hér söguna.
Logi Geirsson segir hér söguna. Mynd/Stöð 2 Sport
Logi Geirsson var sérfræðingur Seinni bylgjunnar í þætti gærkvöldsins og hann kom með eina góða sögu í tilefni af jólaþættinum.

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR-liðsins, var mjög glaður í viðtali eftir sigurleik hans manna á móti Aftureldingu enda gott að fara inn í langt jólafrí með sigur.

„Bjarni er mjög glaður. Lífið leikur við hann. Orri óstövandi er að pakka saman metsölulistanum og hann er að vinna handboltaleiki. Það eru gleðileg jól hjá Bjarna Fritzsyni,“ sagði Tómas Þór Þórðarson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Sagan segir samt að í í bókinni hans Bjarna séu sögur úr handboltaheiminum,“ sagði Logi Geirsson og er þá að meina að sögur úr handboltanum í gegnum tíðin hafi verið stílfærðar yfir á börn.

„Komdu með eina,“ sagði Tómas Þór.

„Til dæmis eins og þegar bróðirinn setur kakó í brúsann. Allur handboltaheimurinn veit þetta. Kaupið bókina hans Bjarna. Þetta er geggjuð bók. Ég er búinn að lesa hana,“ sagði Logi.  Tómas gekk á hann og fékk að vita meira.

„Í bókinni er bróðir hans að byrja að lyfta og fara að æfa á fullu. Hann skiptir próteininu út fyrir kakó. Þetta gerðist í alvörunni í meistaraflokki fyrir svona tíu til fimmtán árum síðan. Hann er búinn að stílfæra þetta inn í barnabók og mér finnst það geggjað. Þetta er snilld,“ sagði Logi.

Það má sjá allt innslagið um sögurnar úr handboltaheiminum hér fyrir neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Sögur úr handboltaheiminum í barnabókum Bjarna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×