Enski boltinn

Manchester United búið að reka Jose Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho lifði af sautjánda desember en ekki þann átjánda. Manchester United hefur ákveðið að reka knattspyrnustjóra sinn.

Manchester United sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að portúgalski stjórinn hafi yfirgefið félagið.

Manchester United þakkaði Mourinho fyrir vinnu sína sem stjóri Manchester United en hann tók við liðinu sumarið 2016. Honum er einnig óskað góðs gengis í framtíðinni. 







Manchester United er 19 stigum á eftir toppliði Liverpool eftir 3-1 tap á Anfield um síðustu helgi. Liverpool yfirspilaði United-liðið stærsta hluta leiksins.

Það kemur fram í fréttatilkynningunni að Manchester United mun ekki ráða framtíðarstjóra strax heldur verður stjóri ráðinn tímabundið til að klára þetta tímabil.

United vann aðeins einu sinni í síðustu sex deildarleikjum sínum undir stjórn Mourinho og gerði þar jafntefli við bæði Southampton og Crystal Palace.

Manchester United er í sjötta sæti deildarinnar en það eru ellefu stig í fjórða og síðasta sætið sem hefur þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Manchester United er hinsvegar komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir franska liðinu Paris Saint Germain í febrúar og mars. 





Hinn 55 ára gamli Jose Mourinho var rekinn frá Chelsea 17. desember 2015 aðeins sjö mánuðum eftir að hann gerði félagið að Englandsmeisturum í þriðja sinn. Hann hafði áður hætt óvænt hjá Chelsea 20. september 2007 en það var sagt vera sameiginleg ákvörðun.

Það munaði því aðeins einum degi að Mourinho hafi verið rekinn tvisvar frá ensku úrvalsdeildarliði á sama mánaðardegi. Ákvörðunin um þennan brottrekstur var þó væntanlega tekin í gær 17. desember 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×