Innlent

Lög­reglan biður íbúa á höfuð­borgar­svæðinu að vera vel á verði vegna fjölda inn­brota

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjölgunin skýrist að einhverju leyti af fleiri tilkynningum um innbrot í geymslur og bílskúra en þá hafa einnig borist fleiri tilkynningar um innbrot á heimili.
Fjölgunin skýrist að einhverju leyti af fleiri tilkynningum um innbrot í geymslur og bílskúra en þá hafa einnig borist fleiri tilkynningar um innbrot á heimili. Vísir/Vilhelm
Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði í nóvember og þar af fjölgaði innbrotum á heimili og í bíla mikið. Lögreglan biður íbúa að vera á vel á verði vegna þessa.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði í nóvember en í tilkynningu lögreglunnar segir að ekki hafi borist tilkynningar um fleiri innbrot á einum mánuði síðan í október 2011.

Fjölgunin skýrist að einhverju leyti af fleiri tilkynningum um innbrot í geymslur og bílskúra en þá hafa einnig borist fleiri tilkynningar um innbrot á heimili.

„Í byrjun desember varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því að mögulega væri erlendur brotahópur kominn hingað til lands  gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn. Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112,“ segir í tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×