Viðskipti innlent

Júlíus Vífill í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Júlíus Vífill Ingvarsson hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Vísir/Vilhelm

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur skömmu fyrir hádegi. Þetta staðfestir Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá niðurstöðunni á vef RÚV. Er dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára.



Saksóknari fór fram á að Júlíus Vífill yrði dæmdur í átta til tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi en hann var ákærður fyrir að hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna sem var talinn vera ávinningur af meintum skattalagabrotum hans fyrir meira en áratug.



Í ákærunni yfir Júlíusi kom fram að hann hefði, á árunum 2010 til 2014, geymt á bankareikningi sínum hjá UBS banka á Ermasundseyjunni Jersey, andvirði 131 til 146 milljóna króna, í Bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum.



Við aðalmeðferð málsins sagði Júlíus Vífill að þeir fjármunir sem hefðu verið geymdir á bankareikningum hans erlendis hefði hann fengið sem þóknunargreiðslur og umboðslaun vegna starfa sinna hjá Ingvari Helgasyni, hvar hann hóf störf árið 1982 og starfaði í 22 ár.



Júlíus neitaði sök í málinu þegar ákæran var þingfest í haust. Júlíus viðurkenndi hins vegar að hann hefði geymt umræddar upphæðir á bankareikningi sínum í UBS banka á Jersey og að árið 2014 hefði hann fært féð inn á reikning hjá Julius Bär í Sviss sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation. Rétthafar vörslusjóðsins voru Júlíus, eiginkona hans og börn.



Aðspurður um hvers vegna hann hefði farið þá leið að leggja féð inn á vörslusjóð sagði Júlíus að hann hefði talið það ágætis leið til að geyma og vernda þessa fjármuni og að ýmsir kostir hefðu fylgt því.



Júlíus lýsti því  fyrir dómi að á áttunda áratugnum hafi það tíðkast að nota umboðsgreiðslur í viðskiptum vegna óðaverðbólgu sem var á Íslandi. Júlíus sagðist fyrir dómi ekki hafa talið fjármunina fram sem tekjur þegar hann fékk þær greiddar.



Júlíus Vífill mætti ekki við dómsuppkvaðninguna í dag.



Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×