Enski boltinn

Mourinho hefur grætt vel á því að vera rekinn fjórum sinnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Ein af fróðlegum samantektum dagsins um fyrrum knattspyrnustjóra Manchester United snýr að því hversu mikið Jose Mourinho hefur fengið borgað frá félögum eftir að þau ráku hann.

Portúgalski knattspyrnustjórinn hefur nefnilega hagnast verulega á því að vera rekinn eins undarlega og það hljómar.

Alls hefur Jose Mourinho verið rekinn fjórum sinnum á ferlinum, tvisvar frá Chelsea, einu sinni frá Real Madrid og nú síðast frá Manchester United.

Mourinho skrifaði undir nýjan samning við Manchester United 25. janúar á þessu ári og var nýi samingurinn í gildi til ársins 2020 með möguleika á eins árs framlengingu.

United mun þurfa að borga upp samninginn til að gera upp við fyrrum knattspyrnustjóra sinn og sú upphæð er sögð verða 24 milljónir punda samkvæmt samantekt Sky Bet.





Manchester United á því eftir að borga Jose Mourinho 3,7 milljarða íslenskra króna.

Real Madrid slapp óvenjuvel og skuldaði Jose ekki neitt eftir að Portúgalinn hætti þar. Kannski ekkert skrýtið að það sé áhugi þar að fá hann aftur.

Chelsea borgaði Mourinho aftur á móti samanlagt 27,5 milljónir punda við þessi tvö starfslok en það eru meira en 4,2 milljarðar.

Samtals hefur Jose Mourinho því fengið 51,5 milljónir punda frá félögum sem ráku hann en það eru 7,9 milljarðar íslenskra króna.

Portúgalinn þarf því ekki að kvarta mikið yfir öllum þessum brottrekstrum ekki síst þar sem að hann virðist alltaf fá nýtt starf fljótlega á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×