Innlent

Má búast við refsingu fyrir að hafa ekið á fimm ára dreng á gangbraut

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hörgárbraut við Glerá á Akureyri.
Hörgárbraut við Glerá á Akureyri. Já.is
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákært konu á þrítugsaldri fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot þegar hún ók á fimm ára dreng á gangbraut norðan heiða í september. Málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag og játaði konan brot sín.

Henni er gefið að sök að hafa þann 24. september síðastliðinn ekið bíl sínum of hratt og án nægilegrar varúðar að merktri gagnbraut sem liggur yfir Hörgárbrautina skammt frá Glerá. Þar var drengur á sjötta aldursári á leið yfir gangbrautina þegar bíllinn skall á honum. Hlaut drengurinn opið lærleggsbrot á vinstri fæti, brákaðist á mjaðmagrind auk þess sem hann hlaut skrámur á höfði og útlimum.

Engin aðalmeðferð verður í málinu þar sem konan játar sök. Verður það dómtekið og má reikna með dómi í málinu innan fjögurra vikna. Er þess krafist að konan verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar.


Tengdar fréttir

Ekið á fimm ára dreng á Akureyri

Ekið var á fimm ára dreng á Hörgárbraut norðan við Skarðshlíð á Akureyri síðdegis í dag. Hann var fluttur á sjúkrahús til frekari aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×