Erlent

„Gulu vestin“ kveikja í tollahliðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekkert lát er á mótmælum gulu vestanna í Frakklandi.
Ekkert lát er á mótmælum gulu vestanna í Frakklandi. Vísir/AP
Mótmælendur sem kalla sig „gulu vestin“ stöðvuðu umferð á hraðbrautum í Frakklandi þegar þeir kveiktu í vegtollahliðum í dag. Nokkrir hafa látist í umferðarslysum við vegartálma sem mótmælendurnir hafa komið upp víða um landið undanfarnar vikur.

Rekstraraðili tollahliðanna segir að mótmælendur hafi komið saman á um fjörutíu stöðum um landið, sérstaklega í sunnanverðu Frakklandi. Þeir hafi sölsað undir sig hliðin og kveikt í sumum þeirra. Loka þurfti hraðbrautum sums staðar vegna mótmælanna, að sögn Reuters.

Gulu vestin byrjuðu að loka vegum og hringtorgum um miðjan nóvember. Upphaflega beindust mótmæli þeirra að hækkun ríkisstjórnarinnar á eldsneytisskatti. Emmanuel Macron, forseti, lúffaði með hækkanirnar í skugga mótmælanna sem fóru harðandi.

Þau hafa engu að síður haldið áfram og beinast nú gegn efnahagsstefnu forsetans almennt. Mótmælendur í gulum vestum hafa kveikt í bílum, farið ránshendi um búir og flogist á við lögreglu í París og fleiri borgum síðustu fjóra laugardaga.

Hundruð hraðaeftirlitstækja hafa einnig verið skemmd eða eyðilögð í mótmælum undanfarinna vikna. Mótmælendurnir eru einnig sagðir reiðir lækkuðum hámarkshraða.


Tengdar fréttir

Gulvestungar hundsa tilmæli stjórnvalda

Franskir mótmælendur, kenndir við gul vesti, söfnuðust í dag saman á Champs-Elysées, helstu breiðgötu Parísar, fimmtu helgina í röð þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda til þeirra um að halda sig heima.

Tilslakanir Macrons munu stórauka fjárlagahallann

Macron ætlar að hækka laun þeirra lægst launuðu um hundrað Evrur í hverjum mánuði frá ársbyrjun 2019 og þá hyggst hann gera breytingar á skattkerfinu í þágu láglaunafólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×