Viðskipti erlent

SpaceX sækir 500 milljónir dollara í hlutafé

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Miðað við hlutafjáraukninguna er félagið, sem alla jafna er kallað SpaceX, metið á 30,5 milljarða dollara eða 3.720 milljarða króna.
Miðað við hlutafjáraukninguna er félagið, sem alla jafna er kallað SpaceX, metið á 30,5 milljarða dollara eða 3.720 milljarða króna. vísir/getty
Eldflaugafyrirtækið Space Ex­ploration Technologies, sem stofnað var af Elon Musk, stefnir á að auka hlutafé um 500 milljónir dollara, jafnvirði 61 milljarðs króna, til að hleypa netþjónustu af stokkunum. Miðað við hlutafjáraukninguna er félagið, sem alla jafna er kallað SpaceX, metið á 30,5 milljarða dollara eða 3.720 milljarða króna.

Núverandi hluthafar og skoska eignastýringin Baillie Gifford & Co, sem er einn stærsti hluthafi rafmagnsbílaframleiðandans Tesla sem Musk fer einnig fyrir, leggja til hlutaféð. Frá stofnun hefur SpaceX safnað 2,5 milljörðum dollara í hlutafé. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

SpaceX stefnir á að fjárfesta í Starlink sem veitir internetþjónustu í gegnum gervihnetti. Hugmyndin er að þjónustan verði veitt fyrir tilstilli fjögur þúsund gervihnatta. Mögulega gætu þeir orðið yfir ellefu þúsund. Til samanburðar telur stærsta net gervitungla fyrir fjarskipti 65 gervihnetti.

Í frétt The Wall Street Journal er vakin athygli á að SpaceX hafi gengið illa að standa við áætlanir. Snemma á árinu 2016 var reiknað með að 44 eldflaugum yrði skotið á loft í ár en stefnt er á að í dag, miðvikudag, verði 21. eldflauginni á þessu ári skotið upp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×