Viðskipti innlent

Samkaup hafa kært kaup Haga á Olís til áfrýjunarnefndar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kaup Haga á Olís voru heimiluð í síðasta mánuði.
Kaup Haga á Olís voru heimiluð í síðasta mánuði. Fréttablaðið/Eyþór
Samkaup hafa kært til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að heimila kaup Haga á Olís. Krefst matvörukeðjan aðallega að ákvörðunin verði felld úr gildi og kaupin ógilt en til vara að áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákveði að binda kaupin frekari skilyrðum og takmörkunum, einkum er varða möguleika sameinaðs félags til þess að vaxa á sviði dagvörumarkaðar.

Samkeppniseftirlitið samþykkti sem kunnugt er samruna Haga, Olís og fasteignafélagsins DGV í lok síðasta mánaðar gegn ákveðnum skilyrðum, meðal annars um sölu eigna.

Hagar fóru fram á að kæru Samkaupa yrði vísað frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála þar sem félagið hefði ekki kæruaðild í málinu en nefndin hafnaði kröfunni í gær. Mun nefndin því taka kæru Samkaupa til efnislegrar meðferðar. Fram kom í tilkynningu sem Hagar birtu í Kauphöllinni í gær að ekki lægi fyrir hve langan tíma afgreiðsla málsins mun taka hjá nefndinni.

Er það mat áfrýjunarnefndarinnar að umrædd kaup geti haft áhrif á stöðu Samkaupa og snert félagið með þeim hætti sem aðgreinir stöðu þess frá öðrum. Bendir nefndin í því sambandi á að við meðferð málsins hafi Samkeppniseftirlitið ítrekað leitað eftir umsögnum og sjónarmiðum Samkaupa til kaupanna. Telja verði því að Samkaup geti haft mikilvæga og sérstaka hagsmuni af kaupunum og eigi því með réttu aðild í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×