Innlent

Spá fækkun starfa í fyrsta sinn frá 2009

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Fréttablaðið/Anton Brink
„Þetta eru mjög sláandi niðurstöður. Væntingar stjórnenda á stöðunni í dag og sex mánuði fram í tímann eru þær verstu frá því að efnahagsuppsveiflan hófst eftir hrun,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um niðurstöður nýrrar könnunar meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins.

Umrædd könnun á mati á aðstæðum í atvinnulífinu er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans og er framkvæmd af Gallup.

„Mér finnst þetta einn besti mælikvarðinn á stöðu hagkerfisins hverju sinni í ljósi þess að við höfum framkvæmt þessa könnun fjórum sinnum á ári í 16 ár,“ segir Halldór.

Búast stjórnendur 30 prósent fyrirtækja við fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum en stjórnendur 10 prósenta fyrirtækja búast við fjölgun starfsmanna.

„Alveg frá því í dýpstu kreppunni 2009 hafa fyrirtækin verið að bæta við sig fólki. Í fyrsta skipti núna frá því eftir hrun sjáum við skýr skil og stjórnendur fyrirtækja gera ráð fyrir að fækka verulega fólki á næstunni,“ segir Halldór.

Miðað við stærðardreifingu fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni má gera ráð fyrir að störfum fækki um 1,2 prósent á næstu sex mánuðum. Sé það yfirfært á allan vinnumarkaðinn myndi það þýða að störfum fækkaði um 1.400.

„Efnahagslegur raunveruleiki knýr alltaf dyra að lokum. Eftir mikinn uppgang undanfarinna ára sjáum við að fyrirtækin eru farin að halda að sér höndum. Þetta er bara staðan í hagkerfinu, því miður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×